Alls sótti 41 um starf útvarpsstjóra sem var auglýst laust til umsóknar 15. nóvember, en umsóknarfrestur rann út á miðnætti. Kemur það fram á vef RÚV. Upphaflegur umsóknarfrestur rann út 2. desember en ákveðið var að framlengja hann um viku, eða til 9. desember.
„Stjórn RÚV ræður útvarpsstjóra. Á næstu vikum verður farið yfir umsóknir, og hefur stjórn fengið ráðningafyrirtækið Capacent til að hafa umsjón með því verkefni. Stjórn RÚV stefnir að því að ganga frá ráðningu nýs útvarpsstjóra í lok janúar 2020,“ segir í tilkynningu frá stjórn RÚV.
Starf útvarpstjóra var auglýst eftir að Magnús Geir Þórðarson sagði starfinu lausu, en hann var skipaður þjóðleikhússtjóri frá og með 1. janúar. Magnús Geir hafði gegnt stöðu útvarpsstjóra frá árinu 2014.
RÚV gaf út að nöfn umsækjenda um stöðuna yrðu ekki gerð opinber og hefur verið deilt um þá ákvörðun, en úrskurðarnefnd upplýsingamála úrskurðaði að lokum að RÚV hafi verið heimilt að leyfa umsækjendum að njóta nafnleyndar.
Margir einstaklingar hafa verið orðaðar við stöðuna, en á meðal þeirra sem hafa gert það opinbert að hafa sótt um starfið eru Elín Hirst, fyrrum fréttamaður, og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona.