Vikulega tekur ritstjórn Mannlífs saman hverjir hafi átt góða og slæma viku. Þessi lentu á lista.
Góð vika – Haraldur Johannessen
Ýmsir hafa ástæðu til að gleðjast þessa vikuna. Már Gunnarsson, tónlistarmaður og afreksmaður í sundi, hlaut Kærleikskúluna og uppljóstrað var að Sigurður Guðjónsson myndlistarmaður verður fulltrúi Íslands á næsta Feneyjatvíæring. Svo er það auðvitað Haraldur Johannessen sem virðist eiga fleiri líf en kötturinn. Eins og kunnugt er fór allt á hliðina eftir að hann ræddi meinta spillingu innan lögreglunnar í Morgunblaðinu í haust og um tíma var ríkislögreglustjóri eins og kötturinn í tunnunni sem allir vilja berja á. Spáðu sumir að ferli hans væri lokið. Annað kom þó heldur betur á daginn í vikunni þegar kunngjört var að Haraldur muni taka að sér ráðgjafastarf hjá dómsmálaráðuneytinu þegar hann lætur af embætti um áramót. Ekki nóg með það, Haraldur heldur fullum launum út árið 2021 og verður með yfir 1,5 milljónir á mánuði. Þá er ekki krafist fastrar viðveru í starfinu og virðist hann því stjórna vinnuframlaginu sjálfur. Ekki amalegt það.
Slæm vika – Borgarstjórn Reykjavíkur
Borgarstjórn Reykjavíkur komst enn einu sinni í fréttirnar fyrir illdeilur og bruðl og skákaði þar með Play, stjórn RÚV og eiginlega bara öllum sem hafa átt slæma daga undanfarið. Margsinnis hefur verið bent á óráðsíu í fjármálum borgarinnar. Flestum er t.d. enn í fersku minni þegar allt varð vitlaust vegna framúrkeyrslu borgarinnar í pálmatrés-málinu og í braggamálinu þar á undan. Nú standa öll spjót á borgarstjórn eftir að upp komst að kræsingarnar sem boðið er upp á, á fundum hennar, á kvöldin kosta 208 þúsund en innifalið í því er 3.900 króna matarskammtur á kjaft. Til samanburðar má geta að á Alþingi kostar kvöldverður fyrir einn þingmann 700 krónur. Borgarfulltrúar hafa brugðist við ýmist með því að benda hvern á annan eða verja bruðlið. Kolbrún Baldursdóttir kannaðist t.d. ekkert við veisluborð í Ráðhúsinu en stuttu síðar dúkkaði svo upp mynd af henni sem hefur vakið athygli á Netinu en þar sést Kolbrún sporðrenna dýrindis önd í vinnunni.