„Samtökin No Borders Iceland krefjast þess að þess að Ásmundur Einar Daðason, barnamálaráðherra og ríkisstjórn Íslands bregðist ekki skyldu sinni gagnvart börnum og að þau stöðvi grimmileg áform sín um að stofna lífi Fadi Bahar í hættu.“ Þannig hefst tilkynning frá samtökunum No Borders Iceland, sem birtist á Facebook í morgun.
Í tilkynningunni segir einnig: „Ef ekki verður gripið inn í verður Ásmundur, ásamt öðrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar, ætíð með örlög Fadi á samvisku sinni.“ Aukreitist segja samtökin að ekkert barn eigi að þurfa að berjast fyrir sínum réttindum, „það á bara að njóta þeirra“.
Með tilkynningu No Borders Iceland, fylgdi bréf frá hinum 17 ára Fadi Bahar, sem er nú í felum fyrir lögreglunni á Suðurnesjum, sem vill, samkvæmt skipun yfirvalda, reka hann úr landi. Segir hann í bréfinu sögu sína en hann þurfti 12 ára gamall að flýja frá Palestínu ásamt föður sínum og bróður, til Svíþjóðar. Þar voru feðgarnir í fjögur ár, án allra réttinda og kennitölu. Vegna þess að glæpagengi vildi þvinga hann í vinnu fyrir sig, neyddist Fadi að flýja til Íslands. „Ég þrái að lifa góðu, öruggu og heiðarlegu lífi,“ skrifar Fadi í bréfinu. Segir hann að lögreglan í Svíþjóð hafi vitað af þeirri ógn sem stafaði af glæpagenginu en glæpagengið heldur að hann hafi unnið með lögreglunni og vilji hann því feigann.
Fadi hefur ekki heyrt í föður sínum og bróður frá 4. desember 2022 en sænsk yfirvöld vildu senda þá aftur til Palestínu. „Ég hafði lofað föður mínum að vera hugrakkur og sterkur, sýna dugnað í skóla og vera heiðarlegur. Nú er ég 17 ára og veit ekki einu sinni hvort þeir séu lífs eða liðnir.“ Eftir að Fadi hafði flakkað á milli úrræða á vegum félagsþjónustunnar fékk hann loks tækifæri á menntun. „Á endanum fékk ég tækifæri á að hefja nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja þar sem ég eignaðist bæði frábæra kennara og vini, og fékk stórkostlega vinnu hjá besta yfirmanni í heimi. Loksins leið mér eins og líf mitt væri komið í betri farveg. Hér yrði pabbi stoltur af mér.“ Nú blasir hins vegar sá veruleiki fyrir Fadi að hann verði sendur til Svíþjóðar á grundvelli fjölskyldusameiningar, þrátt fyrir að vera, að eigin sögn, með skjöl frá félagsmálasþjónustunni í Svíþjóð um að ekki sé vitað um föður hans og bróður. „ Ég á engan að nema mig sjálfan. Ef ég berst ekki fyrir lífi mínu gerir það enginn. Ég er að reyna að gefast ekki upp og vera sterkur en það er oft svo erfitt að halda höfðinu uppi þegar allt blæs á móti mér.“
Hægt er að lesa færsluna í heild sinni hér fyrir neðan:
„Komið þið sæl, ég heiti Fadi Bahar, er 17 ára drengur á flótta frá Palestínu.
Lögreglan á Suðurnesjum leitar að mér og deildi mynd af mér um allt internetið. Það kann að vera að fólk sem séð hefur lýst eftir mér í fjölmiðlum þekki ekki sögu mína og aðstæðurnar sem liggja að baki. Það þykir mér óþægilegt svo mig langar deila með ykkur smá af sögu minni:
Ég var ný orðinn 12 ára þegar ég þurfti að flýja frá Palestínu með föður mínum og bróður.
Við vorum í Svíþjóð í 4 ár án allra réttinda og kennitölu. Ég þurfti að fara til Íslands án föður míns og bróður vegna þess að ég átti í miklum vanda í Svíþjóð og það lá á að fela mig. Glæpagengi vildi þvinga mig til að vinna fyrir sig og ég gat ekki hugsað mér að þurfa að fara þá skelfilegu vegferð. Ég þrái að lifa góðu, öruggu og heiðarlegu lífi. Sænska lögreglan vissi af þeirri ógn sem mér stafaði af glæpagenginu en glæpagengið dró þá ályktun að ég væri að starfa fyrir lögregluna. Þetta varð til þess að glæpagengið leitar að mér (ennþá) og er staðráðið í að myrða mig. Ég hef gögn sem sýna fram á það, bæði videó og skilaboð. Íslenska lögreglan auk barnaverndar og útlendingastofnunar vita þetta líka. Samt finnst þeim í lagi að ætla að senda mig þangað aftur.
Sænsk yfirvöld voru með áform um að brottvísa föður mínum og bróður aftur til Palestínu, síðan þá hefur mér ekkert tekist að hafa samband við þá og hef ekki hugmynd um hvar þeir eru niðurkomnir. Ég veit ekki hvað varð um þá og ég hef ekki talað við föður minn síðan 4. desember 2022. Það var fyrir þessa áður nefndu atburði sem ég ég kom til Íslands. Ég hafði lofað föður mínum að vera hugrakkur og sterkur, sýna dugnað í skóla og vera heiðarlegur. Nú er ég 17 ára og veit ekki einu sinni hvort þeir séu lífs eða liðnir.
Það eru nokkrar manneskjur innan barnaverndar sem hafa reynst mér afskaplega vel og kann ég þeim miklar þakkir fyrir. Eftir að ég kom til Íslands þurfti ég að flakka milli búsetuúrræða á vegum félagsþjónustunar sem ætluð eru fylgdarlausum börnum á flótta á milli þess sem ég fékk synjanir um vernd. Á endanum fékk ég tækifæri á að hefja nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja þar sem ég eignaðist bæði frábæra kennara og vini, og fékk stórkostlega vinnu hjá besta yfirmanni í heimi. Loksins leið mér eins og líf mitt væri komið í betri farveg. Hér yrði pabbi stoltur af mér.
Nú lítur út fyrir að ég neyðist ég til að skilja við líf mitt á ný þar sem lögreglan ætlar sér að senda mig til Svíþjóðar. Það gera þau undir þeim formerkjum að þau vilji að ég sameinist föður mínum og bróður, þrátt fyrir að ég sé með skjöl frá sænskum félagsmálayfirvöldum þess efnis að ekki sé vitað um fjölskyldu mína. Raunin er sú að mér verður komið fyrir í búsetuúrræði fyrir fylgdarlaus börn á flótta og án verndar. Þar mun ég vera geymdur þar til ég verð 18 ára. Því næst verð ég sendur aftur til Palestínu án nokkurrar vonar um líf eða framtíð.
Ég lifi milli vonar og ótta í gjörsamlegri örvæntingu. Fyrstu synjunina fékk ég 6 mánuðum eftir komuna hingað, aðra synjunina fékk ég um miðjan október í fyrra og þriðju synjunina fékk ég þann 15. desember síðastliðinn. Ég á engan að nema mig sjálfan. Ef ég berst ekki fyrir lífi mínu gerir það enginn. Ég er að reyna að gefast ekki upp og vera sterkur en það er oft svo erfitt að halda höfðinu uppi þegar allt blæs á móti mér.
Málið mitt er núna inni á borði hjá Umboðsmanni Alþingis vegna þess að það fékk ekki rétta málsmeðferð í upphafi. Það má í rauninni segja að líf mitt sé í höndum Umboðsmannsins og nefndarinnar hans. Ég þarf að vera í felum þar til nefndin kemst að sinni niðurstöðu. Ég vona að ég nái því og hún komi fljótt af því í Svíþjóð bíða mín annað hvort vonleysi eða dauði.
Mér líður vel á Íslandi og upplifi hér öryggi fyrsta sinn þrátt fyrir allt. Íslendingar hafa veið mér góðir og viljað mér vel. Hér er ég í skóla og á vini og annað gott fólk að, sem er mér sem fjölskylda. Ég finn að hérna get ég átt fallega framtíð. Hjartað mitt getur ekki afborið þá tilhugsun um að þurfa að skilja við þetta allt.
Ég hef ekki sofið almennilega í rúmt eitt og hálft ár, vakna mörgum sinnum á hverri nóttu vegna kvíða og óttast stöðugt um framtíð mína. Er ítrekað að sjá fyrir mér verstu mögulegu útkomuna fyrir mig en þrátt fyrir það er lítill vonarneisti í brjósti mér. Það er hann sem heldur mér gangandi, heldur mér á lífi. Já litli neistinn vonar að ég fái að búa á íslandi og að hitta baba minn og bróður aftur í þessu lífi.
Ég vona að þið hlustið á sögu mína af skilningi og samkennd, og fyrirgefið mér feluleikinn. Kannski getið þið hjálpað mér, líf mitt og framtíð eru í húfi.