Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.6 C
Reykjavik

Samtökin ’78 í fyrsta sinn á fjárlögum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Samtökin ’78 munu á næsta ári fá 20 milljóna króna fjárframlag frá ríkinu samkvæmt fjárlögum ársins 2020. Um „tímabundna“ ráðstöfun er að ræða samkvæmt nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar en framkvæmdastjóri samtakanna segir fjármunina munu koma sér afar vel og vonar að framhald verði á.

 

„Ég held að við í Samtökunum höfum hreinlega náð eyrum fjárlaganefndar,“ segir Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ’78, þegar hann var spurður um ástæður þess að samtökin eru nú í fyrsta sinn á fjárlögum, þ.e. fyrir árið 2020. Fjárveitingin var ekki í upphaflegum drögum en við vinnslu málsins í þinginu lagði meirihluti fjárlaganefndar til 20 milljóna króna tímabundið framlag. Daníel segir upphæðina í góðu samræmi við það sem Samtökin lögðu upp með en hann vonast til að áframhald verði á formlegum stuðningi stjórnvalda og talan eigi eftir að hækka. „Verkefnin eru mörg og ærin,“ bætir hann við.

Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ’78

„Ég er fyrst og fremst afar ánægður,“ segir Daníel um viðbrögð sín við ákvörðuninni. „Samökin ’78 hafa vaxið mikið á undanförnum misserum með tilheyrandi kostnaði. Það kom mér í raun á óvart þegar ég byrjaði að starfa hjá Samtökunum hve lítið þau eru fjármögnuð af hinu opinbera.“ Daníel segir forsvarsmenn samtakanna lengi hafa viljað fara á fjárlög en þau séu ekki styrkt af ríkinu, ólíkt því sem margir halda, heldur greiði ríkið og sveitarfélög fyrir ákveðna þjónustu, t.d. fræðslu og ráðgjöf, í gegnum þjónustusamninga. „Þjónustusamningarnir okkar eru núna þrír; við forsætisráðuneytið, Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbæ. Við erum líka með tímabundinn þjónustusamning við félagsmálaráðuneytið,“ segir Daníel.

„Ráðgjafaþjónustan okkar hefur tífaldast á tæpum áratug en Samtökin eru að taka á móti fólki í um 600 ráðgjafartíma á ári og það er bara einstaklingsráðgjöfin.“

Lógó Samtakana ´78

Málefni intersex barna í forgangi

Þau verkefni Samtakanna ’78 sem ekki falla undir þjónustusamningana eru fjármögnuð með sjálfsaflafé. En hvað hefur breyst? Hafa breytt viðhorf eitthvað með það að gera að fjárlaganefnd tók við sér?

„Markmið okkar er skýrt; að stuðla að bættri andlegri heilsu hinsegin fólks, vinna gegn félagslegri einangrun og stefna að samfélagi fjölbreytileika og sýnileika. Viðhorf Íslendinga til hinsegin fólks almennt er gott; við viljum vera opin og umburðarlynd en við höfum enn verk að vinna. Málefni intersex fólks og þá sérstaklega intersex barna eru í forgangi hjá okkur í Samtökunum eins og er. Eftir að kynrænt sjálfræði var samþykkt þá höfum við fundið fyrir auknum stuðningi en þar var kafli sem beindist að intersex börnum ekki inni í lögunum heldur er nefnd að störfum til að vinna að þeim málum. Það voru mikil vonbrigði en lögin eru mikil réttarbót fyrir trans og kynsegin fólk.“

- Auglýsing -

Fjárframlag ríkisins mun telja um 37% rekstrarfés Samtakanna árið 2020. Daníel segir því um verulega búbót að ræða. Bókhald samtakanna er opið og birt á vefnum, ásamt ársskýrslum og fundargerðum, en hann segir mikið lagt upp úr gegnsæi.

„Þetta er mikilvægt til að styrkja allan okkar rekstur, fjárfesta í húsnæðinu okkar, koma á kerfi til að auka sjálfsaflafé og styrkja þau verkefni sem við erum að sinna nú þegar,“ segir Daníel. „Ráðgjafaþjónustan okkar hefur tífaldast á tæpum áratug en Samtökin eru að taka á móti fólki í um 600 ráðgjafartíma á ári og það er bara einstaklingsráðgjöfin. Þar að auki starfrækjum við stuðningshópa, sinnum fræðslustarfsemi, erum til ráðgjafar fyrir löggjafann og hið opinbera, rekum skrifstofu, sinnum félagslífi, stuðlum að fræðslufyrirlestrum, rekum félagsmiðstöð fyrir ungt fólk og félagsheimili.“

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ’78

Grunnt á fordómunum en stuðningurinn gríðarmikill

- Auglýsing -

„Fyrir mér þá voru viðbrögðin við lögum um kynrænt sjálfræði ágætis áminning um það hversu grunnt fordómar í íslensku samfélagi liggja. En munum samt að þau sem styðja okkur af öllu hjarta eru miklu miklu fleiri en við höldum og miklu fleiri en þau sem hafa hvað hæst í kommentakerfum. Og þeim mun fjölga eftir því sem við komum skilaboðum okkar á framfæri oftar og víðar.“

Þetta sagði Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ’78, á félagsfundi 9. nóvember en í ræðu sinni fór hún yfir starf samtakanna síðustu misseri og þróun mála í réttindabaráttu hinsegin fólks. Þorbjörg hvatti viðstadda til dáða og ítrekaði mikilvægi baráttunnar.

„Hinsegin krakkar eru enn þá miklu líklegri til þess að búa við verri geðheilsu en jafnaldrar þeirra og mæta skilningsleysi og fordómum þegar þau koma út. Eldri hommar og lesbíur eru að einangrast og þeirra þörfum er ekki mætt á viðunandi hátt í kerfinu. Á vinnumarkaði stöndum við verr að vígi. Í íþróttum erum við nær alveg ósýnileg og stemningin innan ákveðinna greina er alveg sérstaklega fjandsamleg. Miðflokkurinn er farinn að gæla við transfóbíska orðræðu. Enn er það svoleiðis að við getum ekki treyst því að okkur sé mætt af skilningi og fordómaleysi innan hins opinbera. Innan menntakerfisins, heilbrigðiskerfisins eða hjá lögreglunni. Nasistar voga sér að ganga um götur landsins og koma fram undir fullu nafni og mynd í fyrsta sinn síðan ég man eftir mér. Þetta er ekki búið og verður það aldrei.

En það sem skiptir langmestu máli er það að við höldum áfram að virkja þann kraft sem í okkur býr þegar við stöndum saman, þvert á kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu, kyneinkenni og kynslóðir, og nýtum baráttugleðina og samstöðuna til þess að móta samfélagið okkar þannig að við höfum öll frelsi og tækifæri til þess að lifa lífinu eins og við sjálf kjósum.“

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -