Lögreglustöð 1, sem annast stóran hluta Reykjavíkur og Seltjarnarness hafði afskipti af erlendum einstaklingum sem reyndust vera í ólöglegri dvöl á landinu. Voru þeir vistaðir í fangaklefa meðan unnið er í málinu. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar.
Lögreglumenn af sömu lögreglustöð sinntu eftirliti á skemmtistað í miðborg Reykjavíkur en þar reyndist ólögráða einstaklingur vera að skemmta sér en á sama stað var einstaklingur undir aldri að afgreiða áfengi. Vaktstjóra var gert að gera ráðstafanir vegna þessa.
Lögreglan sem sinnir Hafnarfirði, Álftanesi og Garðabæ stöðvaði þrjá ökumenn sem grunaðir voru um akstur undir áhrifum fíkniefna. Í einu tilfellinu reyndist ökumaður vera sviptur ökuréttindum vegna fyrri afskipta lögreglu.
Tilkynnt var um tvær líkamsárásir til lögreglu sem starfar í Kópavogi og í Breiðholti. Í annarri árásinni voru þrír einstaklingar grunaðir í málinu. Árásarþoli var með minniháttar áverka í því tilfelli. Þá var tilkynnt um rafhlaupahjólaslys en meiðslin voru ekki talin alvarleg.
Lögreglan sem sinnir Árbæ, Grafarholti, Grafarvogi, Norðlingaholti, Mosfellsbæ, Kjósarhreppi og á Kjalarnesi, var kölluð til á veitingastað vegna einstaklings sem var þar til vandræða. Neitaði aðilinn að fara eftir fyrirmælum lögreglu og yfirgefa staðinn. Var hann að lokum handtekinn. Fór hann þá að hóta lögreglumönnum lífláti og er vistaður í fangaklefa þar til hægt verður að ræða við hann.
Þá var tilkynnt um umferðaróhapp en eitthvað tjón var á bifreiðunum og minniháttar meiðsl á ökumönnum. Lögreglan stöðvaði einnig ökumann grunaðan um akstur undir áhrifum áfengis.