Blessing Uzoma Newton, sem er ein þriggja kvenna frá Nígeríu sem senda á úr landi á morgun, er of veik til að ferðast, að því er fram kemur á læknisvottorði hennar. Hún, eins og hinar konurnar, eru fórnarlömb mansals og sóttu um vernd hér á landi milli 2018 og 2020.
Vísir greinir frá því að konurnar þrjár, sem segjast fórnarlömb mansals, hafa verið í varðhaldi frá því á föstudag og að senda eigi þær til Nígeríu á morgun.
Ein kvennanna, Blessing Uzoma Newton er mjög lasin og segir í læknisvottorði hennar að „brottvísun muni stefna lífi sjúklingsins í alvarlega hættu komi hún til framkvæmdar á núverandi tímamarki“. Helga Silva, lögmaður kvennanna, lagði í gærkvöldi fram kröfu um frestun framkvæmdar og ítrekaði þá beiðni í dag. Enn hefur ekkert svar borist frá stoðdeild lögreglunnar.
Fram kemur enn fremur í læknisvottorði Blessing, sem Vísir hefur í fórum sínum, að lífsnauðsynlegt sé að Blessing hafi greiðan aðgan að bráðaþjónustu sérhæfðra kvennadeilda á sjúkrahúsi. Hún þurfi að vera undir miklu eftirliti, og þurfi blóðgjöf eða járngjafir í æð þegar þess þarf.
Drífa Snædal talskona Stígamóta skrifaði eftirfarandi Facebook-færslu og deildi frétt Vísis:
„Blessing er í lífshættu, hún er í fangelsi á Hólmsheiði og neitað um heimsóknir. Hennar glæpur er að flýja mansal. Reynið að meðtaka grimmdina…“