Líkt og fram hefur komið í fréttum fyrr í dag mun Haraldur Johannesson ríkislögreglustjóri láta af embætti um áramót, eftir að hafa gegnt því í 22 ár, en Haraldur verið umdeildur í embætti sínu.
DV birtir starfslokasamning Haraldar sem undirritaður er af honum og Áslaugu Örnu dómsmálaráðherra. Og samkvæmt honum mun Haraldur vera á fullum launum út árið 2021.
Samkvæmt samningnum mun Haraldur sinna sérverkefnum fyrri hluta árs 2020, en síðan taka laun vegna uppgjörs og biðlaun við. Orlof er auk þess gert upp.
Haraldur mun taka að sér sérstaka ráðgjöf við dómsmálaráðuneytið á sviði löggæslumála, ekki er þó um fasta viðveru að ræða og virðist Haraldur því geta stjórnað sjálfur vinnuframlagi sínu.
Af orðalagi samningsins má ráða að vinnan sé nokkuð valkvæð. Segir að Haraldur taki að sér sérstaka ráðgjöf við dómsmálaráðherra á sviði löggæslumála en ekki verði um fasta viðveru að ræða.
Hættir en fær 40 milljónir
Starfslokasamningurinn virðist með öllu kosta um 40 milljónir króna. Mánaðarlaun ríkislögreglustjóra voru 1.170.443 kr. árið 2018.
Ofan á það bætast við 45 einingar á mánuði í yfirvinnu sem eru 1% af launaflokki 132 í launatöflu kjararáðs nr. 5012. Hver eining er tæplega 9.000 krónur og aukavinnan tæplega 400.000 krónur á mánuði. Mánaðarlaun ríkislögreglustjóra eru því yfir 1,5 milljónir á mánuði.