Í hverju tölublaði tiltekur Mannlíf þá aðila sem þykja hafa átt góða viku og slæma viku.
Góð vika – Kolbeinn Sigþórsson
Ungir bændur í Öxarfirði áttu prýðisviku en þeir vinna nú að því að opna ullarverksmiðju í bæjarhlaðinu. Annar ungur eldhugi hafði líka ástæðu til að kætast en belgíski veitingastaðurinn Souvenir, sem er í eigu hans og konu hans Joke Michiel, fékk afhenta Michelin-stjörnu við hátíðlega athöfn en slík stjörnugjöf er veitt stöðum sem þykja hafa eitthvað alveg sérstakt til að bera til viðbótar við framúrskarandi þjónustu og frábæran mat og telst ein eftirsóttasta viðurkenning sem hægt er að fá í heimi veitingahúsareksturs. Landsliðsframherjinn Kolbeinn Sigþórsson átti svo frábæra viku. Eflaust voru margir búnir að afskrifa Kolbein með hliðsjón af fyrstu fréttum af meiðslum hans í leik landsleik Íslands og Moldóvu á sunnudag, en þau reyndust ekki alvarlegri en svo að þau munu halda honum frá keppni í 4-6 vikur. Eins og kunnugt er héldu meiðsli Kolbeini frá keppni í tæp þrjú ár, en hefur hann hefur að mestu leyti komist meiðslalaust í gegnum árið og getað spilað með landsliðinu og þykir þar af leiðandi hafa átt frábæra endurkomu í boltanum.
Slæm vika – Ríkisstjórn Íslands
Hart er barist um þetta dálkapláss að þessu sinni. Þannig virðist flugfélaginu Play ganga illa að ná í innlenda fjárfesta til að leggja því til tólf milljónir evra í hlutafé. Stjórnendur Morgunblaðsins uppskáru reiði vegna meintra verkfallsbrota á verkfalli blaðamanna. Hart hefur verið sótt að Eyþóri Arnalds í kjölfar fréttar Stundarinnar þess efnis að hann hafi verið fjármagnaður af Kýpurfélagi Samherja þegar hann keypti hlut útgerðarfélagsins í Morgunblaðinu. Og Erna Ýr Öldudóttur, blaðamaður Viljans, var tjörguð og fiðruð á samfélagsmiðlum fyrir að hafa, á borgarafundi í beinni útsendingu á RÚV, kallað þá sem óttast hamfarahlýnun bölsýnisfólk. En ef frá eru taldir stjórnendur Samherja, þá fékk ríkisstjórn Íslands eina verstu útreiðina í vikunni, einmitt vegna viðbragða hennar við Samherjamálinu sem stjórnarandstaðan, með Pírata í broddi fylkingar, hefur kallað plástrapólitík. Telur Þórhildur Sunna Ævarsdóttir að rannsaka þurfi hvort linkind stjórnvalda hafi orðið til þess að auðvelda meinta glæpi Samherja.