Mánudagur 25. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Namibíumenn reiðir vegna Samherjamálsins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Namibískur blaðamaður segir Namibíumenn búa sig undir frekari uppljóstranir í tengslum við meinta mútuþægni þarlendra ráðamanna. Hún segir einstaklinga tengda stjórnarflokknum hafa efnast á kostnað almennra borgara árum saman. Aðgerðasinni segir málið skammarlegt.

Almenningur í Namibíu er reiður, segir blaðamaðurinn Jemima Beukes, sem skrifar um stjórnmál fyrir Namibian Sun. Beukes hefur verið að fylgjast með Samherjamálinu og segir reiðina stafa af því hversu mikið vandamál spilling sé í landinu, þar sem einstaklingar með pólitísk tengsl séu að hagnast á kostnað almennra borgara. Bernhard Esau, sjávarútvegsráðherra Namibíu, og Sacky Shanghala dómsmálaráðherra sögðu af sér í síðustu viku í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar um að þeir hefðu þegið mútur fyrir kvóta til handa Samherja og þá greindu namibískir fjölmiðlar frá því að reikningar Shanghala og Tamson Hatuikulipi, tengdasonar Esau, hefðu verið frystir. Á miðvikudag lét James Hatuikulipi, frændi Tamson, af störfum sem stjórnarformaður sjávarútvegsfyrirtækisins Fishcor.

Namibíumenn ganga til kosninga 27. nóvember næstkomandi og að sögn Beukes þykir gagnrýnendum ríkisstjórnarinnar mútuhneykslið endurspegla stjórnarhætti Swapo-flokksins. „Auk þess standa nú yfir einir mestu þurrkar í sögu Namibíu, þar sem 700 þúsund manns hafa skráð sig fyrir matar- og annarri neyðaraðstoð á sama tíma og ráðherrar og háttsettir aðilar innan sjávarútvegsins eru sakaðir um að hafa þegið hundruð milljónir Namibíudala í mútur. Á þessum tíma vitum við ekki hversu langt málið nær. Namibíumenn eru á því að fleira eigi eftir að koma í ljós,“ segir Beukes.

„Það er skammarlegt að sjá fáeina einstaklinga efnast til að lifa í munaði á kostnað barna sem hafa ekki mat að borða. Á kostnað barna sem eiga ekki kost á því að sækja skóla og fólks sem fær ekki lyf á sjúkrahúsum.“

Hún segir fréttirnar þó ekki hafa komið á óvart, þar sem Swapo njóti tveggja þriðju meirihluta á þingi og einstaklingar tengdir flokknum hafi í áratugi efnast á auðlindum ríkisins. Fjöldi spillingarmála hafi komið upp á síðustu árum. „Það er almenn óánægja með nefndina sem á að taka á spillingarmálum, þar sem hún er álitin bitlaus hundur sem eltist bara við „litlu fiskana“. Það er afar brýnt að handtökur verði framkvæmdar og ljósi varpað á hverjir aðrir eiga hlut að máli.“

Til marks um stjórnarkreppu
Spillingu hefur verið mótmælt í höfuðborginni Windhoek eftir að Samherjamálið komst í hámæli en aðgerðasinninn Sandy Tjaronda segir málið sorglegt og recur það til stjórnarkreppu sem hann segir ríkja í landinu. „Það er skammarlegt að sjá fólk taka sér svona mikið fé í eigin vasa, sem hefði annars getað gert svo mikið fyrir landið. Það er skammarlegt að sjá fáeina einstaklinga efnast til að lifa í munaði á kostnað barna sem hafa ekki mat að borða. Á kostnað barna sem eiga ekki kost á því að sækja skóla og fólks sem fær ekki lyf á sjúkrahúsum.“

Tjaronda segir forsetann virðast ófæran um að láta ráðherra sína axla ábyrgð. „Í hvert sinn sem upp kemur hneyksli af þessum toga virðist forsetinn valdalaus og það vekur alvarlegar spurningar. Þetta fólk sagði sjálft af sér, það var ekki látið fara af forsetanum. Forsetinn hlýtur að vita að ef þú hefur vald til að skipa fólk þá hefur þú líka vald til að láta fólk fjúka. En ef þú beitir ekki svipunni til að reka fólk þá hlýtur það að vekja spurningar um leiðtogahæfni þína.“

Íslenskur skipstjóri handtekinn í Namibíu
Viðskiptablaðið greindi frá því í gær að skip Samherja væru enn við veiðar við Namibíu. Haft var eftir Björgólfi Jóhannssyni, starfandi forstjóra fyrirtækisins, að enn væri stefnt að sölu starfseminnar í landinu og að Samherji væri tilbúinn til að starfa með öllum opinberum aðilum að rannsókn hins svokallaða Samherjamáls.

- Auglýsing -

„Við viljum ekki draga neitt undan í því. Við munum starfa með öllum þeim yfirvöldum sem þess óska og þau munu fá aðgang að gögnum eins og þau telja sig þurfa.“ Þá greindu fjölmiðlar í Namibíu frá því í gær að Arngrímur Brynjólfsson, skipstjóri Heinaste, hefði verið handtekinn vegna ólöglegra veiða innan landhelgi Namibíu. Heinaste er í eigu félags þar sem Samherji er hluthafi og staðfesti Björgólfur fréttirnar í samtali við RÚV og Bylgjuna. „Þetta er reyndar ekki mál sem er í sjálfu sér á vegum Samherja.

Þetta er namibískt félag sem Arngrímur er að starfa hjá,“ sagði Björgólfur við Bylgjuna. Sögðu fjölmiðlar Arngrím hafa verið handtekinn ásamt rússneskum kollega sínum, í aðgerðum sem namibísk stjórnvöld hafa staðið fyrir síðustu misseri. Var þeim gert að greiða jafnvirði 830 þúsund íslenskra króna í tryggingagjald og afhenda vegabréf sín. Arngrímur vildi ekki tjá sig um málið við blaðamann Vísis. Þá vildi Þorsteinn Már Baldvinsson, sem vék tímabundið sem forstjóri Samherja í kjölfar umfjöllunar Kveiks og Stundarinnar um Samherjaskjölin, ekki staðfesta hvort Arngrímur starfaði fyrir félagið í dag.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -