Átta þingmenn Viðreisnar, Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna hafa lagt fram þingsályktunartillögu um hraðari málsmeðferð hjónaskilnaða og bætta réttarstöðu þolenda heimilisofbeldis.
Kemur þetta fram í Fréttablaðinu í dag. Skilnaðir á árinu eru 1.099 samkvæmt tölum Þjóðskrár. Ofbeldi í samböndum er algeng ástæða fyrir skilnaði.
„Nú virkar kerfið þannig að sá sem beitir ofbeldinu þarf að játa það, jafnvel þó að hann hafi hlotið dóm,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, fyrsti flutningsmaður tillögunnar og telur að ferlið sjálft geti verið kúgunartæki. „Þegar um er að ræða ofbeldissambönd, líkamleg eða andleg, þá hættir ofbeldið ekki þegar þolandi reynir að losna undan því með skilnaði. Gerendur halda tökunum á þolanda með því að tefja og nýta alla möguleika til þess.“
Jón segir að núverandi hjúskaparlöggjöf sé tafsöm og ekki til þess fallin að hjálpa þolendum. Í tillögunni eru nefnd nokkur atriði sem þyrfti að kanna og breyta. Þá vanti einnig mannafla til að mál af þessu tagi geti gengið hraðar fyrir sig í kerfinu.