Samgöngustofa staðfestir að lögreglan á Akureyri hafi beðið um upplýsingar varðandi mál leigubílsstjóra á Akureyri. Þögn ríkir hins vegar um eðli málsins.
Sjá einnig: Leigubílstjóri á Akureyri sendur í leyfi vegna rannsóknar lögreglu
Mannlíf sagði frá því á dögunum að leigubílsstjóri á Akureyri hafi verið leystur tímabundið frá störfum, á meðan lögreglan rannsakaði mál á hendur honum. Vinnuveitendur mannsins staðfestu hið tímabundna leyfi vegna rannsóknar lögreglu en lögreglan sjálf neitaði hins vegar að staðfesta að hún væri að rannsaka meint brot leigubílsstjóra á Akureyri. Skarphéðinn Aðalsteinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á Akureyri hefur enn ekki svarað Mannlífi hvers vegna hann geti ekki staðfest að lögreglan sé að rannsaka meint brot leigubílsstjóra á Akureyri, þrátt fyrir að vinnuveitandi mannsins staðfesti það.
Nú hefur Samgöngustofa staðfest við Mannlíf að henni hefði borist beiðni um upplýsingar frá lögreglunni. „Samgöngustofa getur staðfest að óskað hafi verið eftir upplýsingum frá lögreglu, sem varðar mál á Akureyri,“ var skriflegt svar Þórhildar Einarsdóttur, samskiptastjóra Samgöngustofu. Mannlíf spurði þá hvers eðils rannsóknin sé en ekkert svar hefur enn borist frá Þórhildi.
Samkvæmt heimildum Mannlífs er leigubílstjórinn grunaður um óljóst brot gegn farþega.