Helga Vala Helgadóttir skrifar pistil um ummæli sem Bjarni Benediktsson lét falla um viðskipti Samherja í Namibíu.
„Það er nú kannski líka það sem er sláandi og svo sem lengi vitað að spillingin í þessum löndum – auðvitað er rót vandans í þessu tiltekna máli veikt og spillt stjórnkerfi í landinu. Það virðist vera einhvers konar rót alls þess sem við erum að sjá flett ofan af,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, þegar hann tjáði sig um viðskipti útgerðafélagsins Samherja í Afríku.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, skrifar pistil um ummæli Bjarna. Pistillinn birtist í Morgunblaðinu í dag.
„Ég vissi ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta þegar ég hlustaði á Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, tjá sig í fyrsta sinn um uppljóstrun Wikileaks, Kveiks og Stundarinnar á meintu framferði útgerðarrisans Samherja í Afríkuríkinu Namibíu,“ skrifar Helga Vala í pistil sinn.
Hún túlkar þá ummæli Bjarna: „Með öðrum orðum er fjármálaráðherra að segja að mögulegt mútubrot, peningaþvætti, skattalagabrot og fleira sem fyrirsvarsmenn Samherja eru nú grunaðir um að hafa ástundað í einu fátækasta ríki heims, megi rekja til spillts stjórnkerfis þar í landi. Að þetta sé, svo vísað sé til orða ráðherrans, ekki á nokkurn hátt afrakstur þeirrar sjávarútvegsstefnu sem rekin hefur verið hér á landi, aðallega í boði Sjálfstæðisflokksins. Ekki heldur vegna þess hvernig stórútgerðinni hefur verið gert kleift að sölsa undir sig allar fiskveiðiheimildir landsins árum saman, heldur af því að stjórnmálamenn suður í Afríku séu bara svona spilltir,“ skrifar hún meðal annars.
Helga varpar fram spurningu í lok pistilsins. „Má ætla að fjármálaráðherra þurfi á smá sjálfsskoðun að halda?“
Óskar Steinn Jónínuson Ómarsson vakti athygli á ummælum Bjarna á Twitter.
Bjarni Ben ekki lengi að fría Samherjamenn ábyrgð og skella skuldinni á vanþróaða Afríkuríkið.
“Auðvitað er rót vandans í þessu tiltekna máli veikt og spillt stjórnkerfi í landinu. Það virðist vera undirrót alls þess sem við erum að sjá flett ofan af.” pic.twitter.com/Q229S54XTV
— 🌏🌹 óskar steinn 🌹🌍 (@oskasteinn) November 13, 2019
Sjá einnig: „Þetta er bara glæpastarfsemi“