„Þetta er bara glæpastarfsemi, skipulögð glæpastarfsemi,“ segir fyrrverandi verkefnastjóri Samherja í Namibíu um viðskipti Samherja í Namibíu.
Útgerðarfélagið Samherji stundar stórfelldar mútugreiðslur til stjórnmála- og embættismanna í Namibíu til þess að ná undir sig eftirsóttan fiskveiðikvóta. Eins hefur Samherji notfært sér skattaskjól í þeim tilgangi að koma hagnaði úr landi. Þetta kemur fram í umfjöllum Stundarinnar sem er birt í kvöld í óhefðbundinni útgáfu.
Samhliða sérútgáfu Stundarinnar fjallar fréttaskýringaþátturinn Kveikur um málið í kvöld. Kveikur er á dagskrá á RÚV. Í umfjöllun Stundarinnar og Kveiks eru skattaskjólsviðskipti Samherja rakin. Umfjöllinun er unnin í samstarfi við Wikileaks og Al Jazeera.
Afríkustarfsemi Samherja hefur reynst fyrirtækinu arðbær. Fyrrverandi verkefnastjóri Samherja ákvað að stíga fram fyrir umfjöllun Kveiks. „Þetta er bara glæpastarfsemi, skipulögð glæpastarfsemi,“ sagði Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi verkefnisstjóri Samherja í Namibíu í samtali við Kveik. Hann viðurkennir að hafa brotið lög fyrir hönd Samherja.
„Framferði Samherja í Namibíu ber öll merki dæmigerðrar spillingar,“ sagði Daniel Balint-Kurti yfirrannsakandi hjá Global Witness. Hann segir umsvif Samherja í Namibíu ekki vera í samhengi við skilyrði þar í landi og segir Samherja sýna „svívirðilega hegðun“.
„Stjórnvöld eru spillt“
Kveikur ræddi þá við namibískan mann að nafni Eddy. Hann rekur verslun og bílaþvottastöð. Hann segir auðlindir Namibíu vera miklar en að samfélagið njóti ekki góðs af þar sem spillingin sé mikil. „Stjórnvöld eru spillt,“ sagði Eddy.
Sjá einnig: Vilja vita hvert millfærslurnar af reikningi Arcticnam fóru