Ég er einfaldur gaur. Spila mig kannski flókinn og djúpan en ég er það alls ekki. Ég var samt eiginlega bara að uppgötva það. Ég er mjög áhrifagjarn. Undanfarið hef ég verið að stöðva tímann aðeins, anda og spyrja mig: En bíddu langar mig raunverulega að gera þetta?
Fara út í bæinn, vera innan um fólk, drekka áfenga drykki, vera laus í hausnum, smjaðra við fólk, reyna vera sætur, vera hress. Langar mig að vakna taugatrekktur og illa sofinn á morgun? Hvað græði ég á þessu?
Þá meina ég ekki í peningum heldur bara hvað græði ég í vellíðan?
Um daginn átti ég og besta vinkona mín vinadeit á laugardegi sem byrjaði klukkan 11 í hádeginu, dressuðum okkur upp, fórum á safn, fórum í hádegismat, fórum á opnun Listahátíðar í Reykjavík, fórum heim að horfa á svokallaðar girlie myndir. Ég kom heim kl. 20 endurnærður af menningu, innilegum samskiptum og þakklæti. Þá komu partý boðin og mikið voru þau lokkandi. Ég sá fyrir mér í hyllingum að vera innan um fólk, tónlist, stuð, forsetakosningar, drykkir, dans, vera í fínu fötunum mínum, blikka mann og annann. Svo rann það upp fyrir mér: Nei ég sá þetta ekki í hyllingum. Ég fann hvernig hjartslátturinn var örari, stingur í vinstri öxl, kvíði fyrir að vera þunnur á morgun. Nei okei. Mig langar ekkert að vera í þessum aðstæðum. Ekki í kvöld. Ég er búinn að fá allt sem ég get mögulega fengið úr flottum helgardegi. Af hverju ætti ég að skemma það?
Og þar með var það afgreitt. En hversu oft hef ég samt anað hugsunarlaust út í þessar aðstæður? Ansi oft í gegnum árin. Það er ekki fyrr en fyrst núna þegar fertugsaldurinn er vel á skrið kominn að ég er farinn að hlusta á það sem ég raunverulega vil.
Mig langar oft bara að dansa. En ég nenni ekki alltaf að fara út í bæinn og vera innan um helling af fólki sem er fullt til þess. Ok þá get ég boðið nánum vinum bara heim til mín! Eða beðið þangað til ég kenni næst Zumba!
Stundum mála ég upp tvær myndir af kvöldinu. Ein djamm mynd í bænum og svo ein þar sem ég elda mér pasta, fæ mér pepsi max (mitt guilty pleasure nokkru sinnum í mánuði) og horfi á Gilmore Girls í hundraðasta skipti.
Og vitið hvað, seinni myndin kallar lang oftast á mig undanfarið. Er ég orðinn leiðinlegur? Eða hef ég alltaf verið leiðinlegur? Ég er bara að kynnast mér fyrst núna? Það tók sinn tíma.
Hve mörg okkar viljum raunverulega gera allt sem við erum að gera? Erum við oft að fara yfir okkar eigin vilja og mörk? Og þá af hverju?
Hvað græðum við? Nú vil ég ekki setja út á eða segja að þau sem fara marga daga út á galeiðuna í viku eða mánuði séu að gera það gegn sínum vilja. Sumt fólk endurnærist örugglega af því að vera stöðugt innan um fólk, vera í glasi, vera ligeglad, vita ekki hvernig kvöldið endar og finnst það æðislegt. Já, mögulega vil ég upplifa þannig kvöld einu sinni á ári. En ég held að öll hin kvöldin vil ég helst bara vera í náttfötum, ullarsokkum, kveikja á kertum, lesa eða horfa á kvikmynd.
Og það er ég. Og mér finnst mjög spennandi að hugsa til þess að ég sé að fara kynnast mér betur. Spyrja mig, hey hvað vilt þú raunverulega gera? Hvað myndi næra þig í kvöld? Hvað myndi róa hjartað þitt í kvöld? Og hvað byggir upp góðan svefn og dag á morgun?
Kannski er bara málið að ég er farinn að spyrja mig öðruvísi og út frá annarskonar gildum.
Kannski veit ég að tíminn minn er takmarkaður og mig langar að eyða honum sem mest í vellíðan.
Þetta er kannski ekkert ofboðslega spennandi og sexí.
En þurfum við öll alltaf að vera sexí?
Friðrik Agni Árnason