Kristján Berg opnar sig um fangelsisvistina: „Ég þreif þar oft blóð af veggjum“

top augl

Kristján Berg Ásgeirsson, eða Fiskikóngurinn eins og hann er gjarnan kallaður og eigandi Heitra potta, hefur verið þekktasti fisksali á Íslandi um árabil en hann hefur selt Íslendingum fisk í yfir þrjátíu ár. Frumlegar auglýsingar hans hafa gjarna vakið athygli og þá hefur hann oftar en ekki ratað í fjölmiðla vegna hinna ýmissa mála. Kristján Berg er nokkuð hispurslaus á samfélagsmiðlunum og veigrar sér ekki við því að tjá hug sinn og hefur stundum verið gagnrýndur í kjölfarið.

Fortíð Fiskikóngsins hefur lengi verið á milli tannanna á fólki en árið 1996 var Kristján dæmdur ásamt þremur öðrum mönnum til tveggja og hálfs árs fangelsisvistar vegna innflutning og sölu á alsælutöflum. Færri vita að Fiskikóngurinn missti aleiguna í Hruninu 2008. Í nýjasta viðtali Reynis Traustasonar í hlaðvarpsþættinum Sjóarinn, ræðir Kristján Berg á opinskáan hátt um fortíðina, deilur við fyrrum samstarfsfélaga sinn, Hrunið og fleira.

Reynir spyr Kristján Berg hvernig hann hafi tekist á við fangelsisvistina, eftir að hann hlaut dóm fyrir fíkniefnainnflutning og sölu árið 1997 en hann sat inni í ár.

Kristján Berg segir það að vera ekki í neyslu, hafi hjálpað sér að komast í gegnum þá erfiðleika þegar hann sat inni fyrir fíkniefnainnflutning og sölu á alsælutöflum. „Númer eitt, tvö og þrjú, að vera ekki í neyslu. Ég skráði mig strax í skóla og kláraði þar stúdentinn. Ég tók að mér að skúra allt fangelsið. Ég þreif þar oft blóð af veggjum, þegar menn voru að mótmæla og skáru sig á púls og skrifuðu á alla veggina. Það var dauðsfall þarna inni,“ sagði Kristján um það sem hann hafðist við á meðan hann tók út fangelsisdóm sinn. Og hélt áfram: „Ég æfði rosalega vel, lyftingar og það var spilaður fótbolti úti. Og ég fékk mikið af heimsóknum. Þannig að það var eiginlega bara hjá mér að hafa sem mest að gera og reyna að kynnast strákunum og læra af þeim. Það var oft rosalega gaman að tala við þá, sögurnar af því rugli sem var búið að gerast. Það er stórkostlegt að hafa fengið tækifæri á að tala við alla þessa stráka. Og spila fótbolta með þeim. Það var alveg geggjað. Og svo komu lögfræðingarnir og við spiluðum við þá og svo komu löggurnar og við spiluðum við þá. Þessi tími var bara lærdómsríkur en erfiður.“

Aðspurður segir Kristján Berg hafa verið með 175 krónur á tímann fyrir að þrífa fangelsið. „En tímakaupið skipti ekki máli. Ég reyndi að vera sem minnst inni í klefa. Ég blandaði geði við alla fangaverðina en ég held ég sé búinn að selja fimm eða sex fangavörðum pott,“ sagði Kristján og skellti upp úr. „Og það versla margir við mig fisk og ég ber þeim bara góða söguna.“

Reynir spyr hvort það hafi aldrei verið erfitt fyrir Fiskikónginn að ræða um fangelsisdóminn.

„Nei, ef maður hugsar þetta smá rökrétt þá sko. Þú ert að fara til sálfræðings. Ég fer til sálfræðings einu sinni í mánuði, hef alltaf gert það. Hvað ertu að gera hjá sálfræðingi? Þú ert að segja eitthvað sem þér líður illa með. Eitthvað sem liggur þér á brjósti. Ef það er verið að spyrja þig að einhverju, eins og þú ert að gera núna, þá er besta sálfræðimeðferðin að tala. Og losa um þetta frá sjálfum þér. Og það hef ég sagt, ef einhver vill tala við mig, spyrja mig hvernig þetta var, var þetta svona eða hinsegin? Þá er ég tilbúinn að setja niður og tala og skýra mín mál. Gróusögurnar eru kannski verstar. En ég er búinn að ýta þeim alveg frá mér.“

Hægt er að hlusta á allt viðtalið hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni