- Auglýsing -
Seint í gærkvöld var karlmaður stunginn með hnífi í heimahúsi í Súðavík. Kallað var eftir aðstoð í gegum Neyðarlínuna. Lögregla og sjúkralið fóru þá þegar á vettvang.
Hinn slasaði var fluttur með sjúkrabíl til Ísafjarðar og í kjölfarið með sjúkravél á sjúkrahús í Reykjavík. Hann var með lífshættuleg stungusár sem þurfti að meðhöndla frekar. Maðurinn er nú kominn úr lífshættu.
Árásarmaðurinn grunaði, ungur karlmaður, var handtekinn á staðnum og færður í fangelsi á Ísafirði. Lögreglustjórinn á Vestfjörðum mun í dag leggja fram kröfu fyrir Héraðsdómi Vestfjarða um að hann sæti gæsluvarðhaldi, á grundvelli rannsóknarhagsmuna.