Blaðamenn, ljósmyndarar og myndatökumenn á Fréttablaðinu, Morgunblaðinu, RÚV og Vísi lögðu niður störf klukkan 10 í morgun vegna verkfallsaðgerða félagsmanna í Blaðamannafélaginu. Verkfallið nær ekki til Mannlífs, Kjarnans, Stundarinnar og DV sem munu eftir sem áður veita hefðbundna fréttaþjónustu í allan dag.
Standa verkfallsaðgerðir áðurnefndra miðla yfir til klukkan 14 í dag. Náist ekki samningar fyrir næsta föstudag munu blaðamenn sömu miðla leggja niður störf í átta klukkutíma sama dag og tólf tíma föstudaginn þar á eftir.
Útgáfufélagið Birtíngur, sem gefur út helgarblaðið Mannlíf, Gestgjafann, Vikuna og Hús og híbýli tók af skarið og undirritaði á dögunum nýjan kjarasamning við Blaðamannafélag Íslands. Hjálmar Jónsson, formaður BÍ, sagðist af því tilefni vera gríðarlega ánægður með að samningar hafi náðst við Birtíng. „Það skiptir höfuðmáli í þeirri erfiðu stöðu sem fjölmiðlar eru í, að taka höndum saman, sækja fram, og nýta þau tækifæri sem fyrir hendi eru. Til þess þarf að sýna frumkvæði og hugrekki og verja lágmarkskjör. Það hefur tekist með þessum samningi að mínu mati og á Birtingur heiður skilinn að eiga þar hlut að máli.“
Kjarninn og Stundin undirrituðu í kjölfarið samninga sem eru í „öllum aðalatriðum“ samhljóða samningum sem Blaðamannafélagið gerði við Birtíng.
Á vef Blaðamannafélagsins kemur fram að viðræður við aðra smærri fjölmiðla, svo sem DV, Bændablaðið og Viðskiptablaðið gangi vel, þó þær hafi ekki enn leitt til niðurstöðu.