Mánudagur 25. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Segir Ísland standa á tímamótum: „Nú á að skera af fjallkonunni brjóstin, fjöllin og flytja burt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir skrifaði Facebook-færslu í gær sem vakið hefur gríðarlega athygli en umræðuefnið er Fjallkonan, nú og þá.

„17.júní 2024

Bókagjöf ríkisstjórnarinnar, Fjallkonan, er tímanna tákn. Handverkið er fagurt en uppátækið allt, holdgervingur hræsni og lyga. Fjallkonan er fangi í kauphöll ríkistjórnar Íslands og hana skal nú hluta í sundur og selja í ánauð.“ Þannig hefst færsla leikkonunnar og fyrrum forsetaframbjóðandann Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur. Og heldur svo áfram:

„Ég þarf ekki að segja ykkur neitt um kvenleikann. Ekkert um það hvers konur eru megnugar, hvað hinir kvenlegu kraftar geta áorkað. Uppspretta lífs og og þar með allrar sköpunnar. Fjallkonan er kvenleg táknmynd landsins, táknmynd móðurinnar sem alla fæðir og alla nærir, táknmynd móðurlandsins okkar, Íslands. Kvenlíkaminn með sín mjúku brjóst og ávölu lendar, sitt hlýja skaut og sterku læri, fimu hendur, fjörugu æðar, fallega hár og breiða bak sem alla ber í faðmi sér er Ísland. Jörðin sem við fæddumst á.“

Steinunn segir því næst að nú eigi Fjallkonan undir högg að sækja:

„Nú á að skera af fjallkonunni brjóstin, fjöllin og flytja burt, fylla æðar hennar, árnar af eitri, mala lendar hennar niður, sandana, fylla frjótt skautið, hafið af grút, setja járngrímu fyrir andlit hennar með suðandi vindskrímslum sem yfirgnæfa móðurmálið, fuglasönginn fagra og fyrir hvað?

Græðgi mannanna.“

Sjálf var Steinunn Fjallkona árið 1994 í Reykjavík en hún rifjar upp þá stund í færslunni:

- Auglýsing -
„Ófáar höfum við leikkonurnar tekið að okkur að leika hlutverk fjallkonunnar, táknmyndar móðurlandsins og lengi vel þótti við hæfi að flytja ljóð þar sem skáldin færðu í orð kærleika og þakklæti til landsins og með næmni veittu því einstaka, smáa og fagra sem á Íslandi finnst og er. Skáldin sjá og spegla til okkar því sem mikils virði er, fallvaltleikanum, ábyrgðinni og færa okkur í ljóðum sínum mælistikurnar einu.
Árið 1994 á fimmtíu ára afmæli lýðveldissins var mér treyst fyrir hlutverki fjallkonunnar og undir handleiðslu Klemens Jónssonar leikstjóra og reyndar móður minnar líka æfði ég ljóð Snorra Hjartarsonar, Land, þjóð og tunga, sem kjarnar einmitt það sem ég geri að umfjöllunarefni.
Þegar ég flutti ljóðið á Austurvelli að morgni 17. júní gerðist það sem ég gleymi aldrei enda var það kostuleg sjón, þar sem ég stóð andspænis fyrirfólki Íslands, Vigdísi forseta, ríkisstjórninni og hennar erlendu gestum sem í tilefni stórafmælis lýðveldisins voru hin skandínavíska hirð eins og hún lagði sig.

Í miðjum flutningi ljóðsins flaug flugvél yfir og þá litu höfuðin háu í forundran til himins á stálfuglinn sem flaug nú hjá. Vitanlega heyrði enginn ljóðið til enda fyrir flugvélagnýnum.

Spyr hún svo hvort þetta sé ekki táknrænt og ákveðinn fyrirboði:

 

- Auglýsing -
„Táknrænt ekki satt og kannski í þessu atviki falinn fyrirboði? Athygli stjórnvalda er í það minnsta löngu horfin af því sem mikilvægt er; þegar fjallkonan er nú augnstungin, svívirt og seld í ánauð af aftengdu og trylltu fólki sem enga elsku eiga til lands og þjóðar.

Fjallkonuflokkinn þarf að stofna. Flokk sem rúmar allar manneskjur sem elska náttúru Íslands, menningu og mannréttindin sjálfsögðu sem stjórnvöld halda í oflæti þau geti skert og aukið að vild.“

Að lokum birtir hún ljóð Snorra Hjartarsonar sem hún las upp fyrir 30 árum síðan.

„Þjóðhátíðarkveðjur allir þeir sem ég veit að elska landið okkar eins og þá einu móður sem aldrei gefur okkur neitt nema ástina skilyrðislausu. Móðurina sem við verðum nú að verja með ráðum og dáðum. Nú verðum við kæru vinir að heyra ljóð Snorra til enda, læra það utan að og begðast ekki.

Land, þjóð og tunga
Land þjóð og tunga, þrenning sönn og ein,
þér var ég gefinn barn á móðurkné;
ég lék hjá þér við læk og blóm og stein,
þú leiddir mig í orðs þíns háu vé.
Á dimmum vegi dýrð þín um mig skein,
í dögun þeirri er líkn og stormahlé
og sókn og vaka: eining hörð og hrein,
þú heimtar trúnað, spyr hver efnd mín sé.
Þú átt mig, ég er aðeins til í þér.
Örlagastundin nálgast grimm og köld;
hiki ég þá og bregðist bý ég mér
bann þitt og útlegð fram á hinsta kvöld.
Ísland, í lyftum heitum höndum ver
ég heiður þinn og líf gegn trylltri öld.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -