Trúbadorinn Ásgeir Kr. er í vandræðum með heilbrigðiskerfið en hann þarf nauðsynlega að komast í aðgerð til að fjarlægja auka húð en hann hefur lést um 90 kíló frá því að hann fór í hjáveituaðgerð árið 2010.
Ásgeir Kr. náði þeim merka áfanga í gær að ná að missa alls 90 kíló en hann fór í hjáveituaðgerð árið 2010.
„Árið 2010 fór ég í hjáveituaðgerð og er núna búinn að ná þessum árangri. Lést alltaf smá og smá aldrei komið bakslag,“ segir Ásgeir í samtali við Mannlíf. Kveðst hann nú þurfa nauðsynlega að losna við auka húð sem veldur heilsufarslegum vandamálum.
„Núna er ég kominn með fullt af „auka“ húð sem er farið að valda líkamlegum vandamálum. En fyrst að tryggingarnar ákváðu núna um áramót að hætta að niðurgreiða svuntuaðgerðir, þá er mér kastað á milli eins og heitri kartöflu. Ég veit ekki hvort að það sé verið að bíða eftir að ég fái alvarlegar sýkingar og þá neyðist einhver til að takast á við þetta.“
Mannlíf spyr Ásgeir frekar út í málið og hann útskýrir hvað hann eigi við:
„Sjúkratryggingar neita að borga og þá segir Landspítalinn nei og bendir á Klíníkina og Klíníkin segir nei og bendir á Landspítalann. En heilbrigðiskerfið sendi mig í hjáveituaðgerð í byrjun og mér og heimilislækninum mínum finnst að þeir eigi að klára dæmið. Ég á ekki pening fyrir þessu sjálfur. Er með sex manna fjölskyldu.“
Samkvæmt Ásgeiri kostar það um eina og hálfa til tvær milljónir króna að láta fjarlægja auka húð.