Fyrrverandi starfsmaður veitingastaðarins Ítalía hefur ekki enn fengið greidd laun fyrir apríl mánuð. Hann er nú í fæðingarorlofi.
Sjá einnig: Eigandi Ítalíu skuldar starfsfólki laun: „Ég trúi ekki að þetta sé að gerast á Íslandi“
Denis Koval kom frá Úkraínu fyrir einu og hálfu ári síðan en segir farir sínar alls ekki sléttar þegar snýr að atvinnurekendum sínum hér á landi. Í upphafi hóf hann störf á hóteli en hætti þar eftir ósætti þar.
Eiginkona Denis var orðin ólétt en til þess að hann ætti rétt á barnabótum og fæðingarorlofi, varð hann að vera í vinnu. Hóf hann því störf við veitingastaðinn Ítalíu, en þar gekk á ýmsu.
„Ég hóf störf á Ítalíu en þar var mér strax sagt að þeir ættu í fjárhagsvandræðum og að ég myndi ekki fá greidd laun þann fyrsta næsta mánaðar, heldur í kringum þann þriðja. Það var í lagi mín vegna, því aðalmálið fyrir mig var að hafa vinnu svo ég fengi fæðingarorlof. Þann 3. apríl fékk ég aðeins hluta af mánaðarlaununum borguð eða 174.000 krónur en á launaseðlinum stóð 229.000 krónur. Mánuði seinna, sjötta maí, fékk ég 50.000 sem var fyrir mars. En hvað með launin fyrir apríl? Í dag hef ég ekki enn fengið laun fyrir aprílmánuð en nú er 18. júní. Ég hef því beðið í 49 daga eftir laununum mínum.“
Denis hefur ítrekað ýtt á eftir greiðslum.
„Í hvert skipti sem ég spyr um peningana, og það er mjög oft, hafa þeir sagt að ég fái greitt á „mánudaginn“ en á 49 dögum eru ansi margir mánudagar.“
Denis segir að nýlega hafi nýtt starfsfólk verið ráðið á veitingastaðinn.
„Fyrir nokkrum vikum síðan skrapp ég á staðinn. Þeir voru búnir að ráða nýtt fólk og voru að panta nýja hluti. Og ég bíð enn eftir laununum mínum, frá 1. maí og til dagsins í dag.“
Þrátt fyrir þessar raunir er Denis hamingjusamur en honum tókst að verða sér út um nýja vinnu og tryggja fæðingarorlof.
„Ég er þegar búinn að finna nýja vinnu og sonur minn fæddist 10. maí. Greiðslurnar til mín voru samþykktar þannig að ég er ánægður að allt gekk upp, með einum eða öðrum hætti. Nú er ánægjulegasta tímabil lífs míns hafið, ég er pabbi. Að eignast barn er blessun. Nú vil ég bara fá launin mín og halda áfram með líf mitt.“
Mannlíf fjallaði um vandræði Salome Berelidze frá Georgíu og fleirri starfsmanna veitingastaðarins við að fá greidd laun, en starfsmennirnir eru frá ýmsum löndum, til dæmis Grikklandi og Póllandi. Eftir að Mannlíf fjallaði um málið, fengu flestir starfsmennirnir loks greidd laun en eigandi staðarins, Elvar Ingimarsson sagði í samtali við Mannlíf að „tæknivandamál“ hafi ollið töfum á greiðslum, sem og að „launakostnaður hafi hækkað mikið“. Samkvæmt upplýsingum Mannlífs er að minnsta kosti einn fyrrverandi starfsmaður enn að bíða eftir launum frá veitingastaðnum, auk Denis.