Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-8.2 C
Reykjavik

Prestur, harðstjóri og morðingi – Fórnarlömbin voru meðal annars eiginkonur, synir og dætur sérans

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Séra Andras Pandy var ekki allur þar sem hann var séður. Hann naut hylli sem prestur ungverskra mótmælenda í Belgíu, en heima fyrir var hann harðstjóri sem þoldi engum að setja sig upp á móti honum. Þeir sem það gerðu áttu ekki langra lífdaga auðið og skipti engu hver í hlut átti.

 

Séra Andras Pandy hafði ákveðnar skoðanir á því í hverju skyldur sínar sem föður væru fólgnar. Ef einhver í fjölskyldunni setti sig upp á móti á honum molaði hann höfuð viðkomandi með járnröri, hlutaði líkið í sundur og kastaði líkamshlutunum í úrgang hjá nálægu sláturhúsi. Allt sem hægt var að bera kennsl á, til dæmis höfuð, leysti Pandy upp í sýru. Tvær eiginkonur, tveir synir og tvær dætur féllu fyrir banvænni reiði hins harðúðuga prests, en aldrei fannst tangur né tetur af líkamsleifum þeirra.

Heillandi prestur

Andras Pandy fæddist í Ungverjalandi 1927. Hann hóf nám í guðfræði í Sviss tuttugu og níu ára að aldri. Meðan á námi hans stóð kvæntist hann ungverskri flóttakonu, Ilonu Sortes, og eignuðust þau dótturina Agnesi. Þegar hann var þrjátíu og tveggja fluttu þau til Belgíu þar sem Pandy þjónaði samfélagi ungverskra mótmælenda. Þess var ekki langt að bíða að hagur Pandys vænkaðist, hann var heillandi prestur, og varð brátt eigandi þriggja heimila í Brussel. Fjölskyldan stækkaði og 1961 fæddist sonurinn Daníel, og þremur árum síðar annar sonur, Zoltan.

Timea skyldi drepin

Hjónaband Pandys og Ilonu var stormasamt, og þau skildu. Pandy kvæntist að nýju og fyrir valinu varð Edit Fintor. Hún átti þrjár dætur á táningsaldri og Pandy hoppaði upp í rúm hjá einni þeirra, Timeu. Timea varð barnshafandi, og tímabært fyrir Pandy að yfirgefa aðra eiginkonu sína. En Timea átti í vandræðum með sérann. Henni lærðist smám saman að honum líkaði ekki ef einhver fór í bága við óskir hans. Til að fyrirbyggja allan misskilning sagði hún Pandy að halda sig fjarri Mark, ávexti samruna þeirra, og að hún hugðist flytja til annars lands til að þurfa ekki að hafa neitt saman að sælda við barnsföður sinn. Slík áform hugnuðust Pandy engan veginn og lagði hann á ráðin, ásamt Agnesi dóttur sinni, sem nú var fulltíða, um að drepa Timeu. Agnes sat fyrir Timeu og sló hana í höfuðið með járnröri, en fyrir kraftaverk lifði Timea tilræðið af og þegar hún hafði náð sér flúði hún ásamt syni sínum til Kanada. Pandy var ekkert á því að gefast upp, og fóru hann og Agnes nokkrar ferðir til Kanada til að fullkomna verkið. En að lokum urðu fleiri ferðir ekki nauðsynlegar því Timea ákvað að setjast að í Ungverjalandi.

Uppreisnargjörn dóttir barin til dauða

En þætti Edit Fintor var ekki lokið. Hún var bálreið Pandy fyrir að hafa dregið Timeu á tálar með þessum afleiðingum og að hann vildi hana feiga var meira en Edit þoldi. Hún og ein dætra hennar fóru ekki í launkofa með stuðning sinn við Timeu, og þá skoðun sína að Pandy gengi ekki heill til skógar. Þetta var meira en sérann lét bjóða sér, að hans mati var um að ræða hreina og klára uppreisn og það yrði ekki liðið. Í júlílok 1986 barði hann hina uppreisnargjörnu dóttur til dauða á meðan Agnes lét hamar vaða í höfuð Edit. Að morðunum loknum fór Pandy til lögreglunnar og tilkynnti að Edit, eiginkona hans, væri horfin. „Hún hvarf fyrir um mánuði. Allt sem ég hef fengið er bréf frá henni, póstlagt í Þýskalandi, og nokkur símskeyti,“ sagði hann. Eðli málsins samkvæmt bar rannsókn lögreglunnar í Þýskalandi ekki árangur.

- Auglýsing -

Morð á báða bóga

Ilona, fyrsta kona Pandys, var þegar hér var komið sögu orðin honum óþægur ljár í þúfu. Hennar sök var ekki stór, hún hafði látið í ljósi óánægju sína með samband Pandys og Timeu. Með óánægju sinni undirritaði hún eigin dauðadóm. Pandy lét verkið í hendur Agnesar, dóttur Ilonu, og 28. mars 1988 fór Agnes auðsveip heim til móður sinnar og myrti hana. Til að fullkomna áhrifin skaut hún einnig til bana bróður sinn, Daníel, sem þá var tuttugu og sex ára. Pandy lét sitt ekki eftir liggja, því skömmu síðar myrti hann hinn son sinn, Zoltan, sem var orðinn frekar hnýsinn vegna hvarfs móður sinnar og bróður. Reyndar fannst Pandy líka að önnur af sínum ættleiddu dætrum væri orðin helst til sjálfstæð. Hún hafði fengið þá flugu í höfuðið að konur hefðu rétt og ætlaði að flytjast á brott og búa í óvígðu sambandi með einhverjum karlmanni. Það leist Pandy ekki meira en svo á, þannig að hann drap hana.

Bein tuttugu kvenna

Eftir því sem tíminn leið urðu reiðiköst Pandys hinni annars tryggu Agnesi ofviða. Fjórum árum eftir morðin á Ilonu og Daníel fór Agnes til lögreglunnar, ekki síst af ótta við að hún væri næst á lista fórnarlamba hans. „Faðir minn hefur átt í kynferðislegu sambandi við mig. Einnig hafa sex fjölskyldumeðlimir horfið með frekar undarlegum hætti. Faðir minn hefur líka átt í kynferðislegu sambandi við hálfsystur mína,“ sagði hún lögreglunni. En þar sem engin lík var að finna gat lögreglan lítið aðhafst á grundvelli frásagnar Agnesar einnar. En 1997 fór Timea til ungversku lögreglunnar og lagði fram kvartanir. „Agnes reyndi að myrða mig og faðir minn nauðgaði mér,“ sagði hún. 20. október sama ár gerði lögreglan húsleit á öllum heimilum Pandys í Belgíu. Í kjallara eins þeirra fundust mannabein sem steypt hafði verið yfir. Rannsókn leiddi í ljós að þau voru ekki ýkja gömul og tilheyrðu um tuttugu manneskjum. Sjö eða átta þeirra höfðu verið konur á aldrinum fjörutíu til fimmtíu ára. Engin þeirra hafði verið skyld Pandy.

Vægir dómar og engin iðrun

Á öllum heimilum Pandys var að finna fölsk loft og felustaði sem erfitt var að koma auga á og komast að. Á sumum þeirra fundust skotvopn. Einnig fann lögreglan eftirlitsmiðstöðvar sem gerðu Pandy kleift að fylgjast náið með því sem átti sér stað í flestum herbergja heimilisins. Andras Pandy var handtekinn mánuði síðar. Hann neitaði ásökunum um sifjaspell og nauðgun, og sagði að enginn fjölskyldumeðlimur hefði verið myrtur. Þeir sem horfnir voru hefðu einfaldlega tekið sig upp og lent í slagtogi með sértrúarsöfnuði, hann hefði meira að segja heimsótt þá endrum og sinnum. Þá staðreynd að erfðasýni sannaði að hann væri faðir Marks útskýrði hann á þann hátt að Timea hefði fengið sæði hans í sig fyrir slysni því þau hefðu deilt rekkju. Hvað varðaði skotvopnin og mannabeinin, sagði Pandy að hann hefði ekki minnstu hugmynd um hvernig stæði á þeim í hans híbýlum. Andras Pandy fékk lífstíðardóm fyrir sex morð og fyrir að nauðga þremur dætra sinna. Agnes var ákærð fyrir fimm morð og hlaut tuttugu og eins árs dóm. Hún sagðist vera leið vegna alls sen gerst hafði og geðlæknar komust að þeirri niðurstöðu að hún ætti við persónuleikavandamál að stríða, þjáðist af minnimáttarkennd á háu stigi og hafi verið fullkomlega á valdi föður síns. Andras Pandy sýndi enga iðrun, hvorki við réttarhöldin né þegar dómur var kveðinn upp.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -