Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór í meirihátta aðgerð gegn glæpagengi nýverið og hafa nú 18 einstaklingar stöðu sakborning í umfangsmiklu fíkniefnamáli. Hald var lagt á sex kíló af kókaíni og amfetamíni, skotvopn og um fjörutíu milljónir í reiðufé.
Í tilkynningu frá lögreglunni segir að lyf, sterar, fíkniefni og skotvopn hafi verið meðal þess sem lögreglan lagði hald á, þar með talda skammbyssu með hljóðdeyfi. Þá fannst einnig um 40 milljónir króna í reiðufé og nokkrar peningatalningavélar.
Snýst málið um innflutning, sölu og dreifinu á fíkniefnum, peningaþvætti og vopnalagabrotum. Rannsóknin hefur staðið yfir um töluverðan tíma, samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Í þágu rannsóknarinnar voru 30 hanteknir og rúmlega þrjátíu leitir voru gerðar í tengslum við hana.
Það var í aðgerðum lögreglunnar um miðjan apríl sem flestir sakborninganna voru handteknir en hópurinn stóð þá fyrir komu tveggja manna sem komu með fíkniefni til landsins með skemmtiferðaskipi. Voru þá fimm úrskurðaðir í gæsluvarðhald. Enn sæta fjórir þeirra gæsluvarðhaldi en sá fimmti var færður í afplánun vegna eldri dóms.
Lögreglan, sem nú hefur lokið rannsókn á málinu, naut aðstoðar lögreglumanna frá öðrum embættum sem og Landhelgisgæslunnar og Tollsins.
Málið verður nú sent embætti héraðssaksóknara til frekari meðferðar.