Allir þeir 28 sakborningar í peningaþvættismáli er tengist Panamaskjölunum hafa nú verið sýknaðir, eins og kemur fram á Vísi.
Einnig að þeirra á meðal séu þeir Jurgen Mossack og Ramón Fonseca Mora; eigendur lögmannstofunnar Mossack Fonseca.

Kemur fram að réttarhöld hófust í málinu fyrir dómi í Panama í apríl síðastliðnum, einum átta árum eftir að um ellefu milljónir skjala með fjárhagsupplýsingum ríkra og valdamikilla einstaklinga víðs vegar að úr heiminum vörpuðu sterku ljósi á hvernig þeir komu eignum sínum undan yfirvöldum heima fyrir í aflandsfélögum; í skattaparadísum eins og Panama og Jómfrúareyjum.
Þeir Mossack og Fonseca neituðu ávallt sök í málinu; þeim var gefið að sök að hafa stofnað skúffufyrirtæki í Panama er þvættuðu fjármuni úr umfangsmiklu spillingarmáli í Brasilíu er hefur verið kennt við bílaþvott.
Fonseca entist eigi aldur til að verða sýknaður; hann lést á sjúkrahúsi í Panama í maí síðastliðnum.
Í frétt breska ríkisútvarpsins kemur fram að dómari í réttarhöldunum, sem tóku 85 klukkustundir, hafi metið það að sönnunargagna í málinu hafi eigi verið aflað í samræmi við réttarfarslög í Panama.
Því voru allir sakborningar málsins sýknaðir.