Það var nóg að gera hjá lögreglunni, eins og oftast áður. Hundrað og sjö mál voru skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu milli klukkan 17 í gær og fimm í nótt, og voru fjórir vistaðir í fangaklefa. Lögregla hefur meðal annars sinnt verkefnum vegna veikinda og/eða annarslegs ástands, samkvæmishávaða, grunsamlegra mannaferða og vegna ýmissar aðstoðar við borgarana.
Ökumaður er var stöðvaður í hverfi 108 í nótt fyrir að aka á 120 km/klst, þar sem hámarkshraði er 80 km/klst, reyndist án ökuréttinda.
Tveir aðrir voru stöðvaðir í nótt sem einnig voru án ökuréttinda; annar þeirra var undir áhrifum fíkniefna.
Þá var einn aðili sektaður fyrir að nota eigi bílbelti við akstur.
Veitingastað í hverfi 101 var lokað þar sem staðurinn var ekki með leyfi fyrir rekstrinum; auk þess var enginn dyravörður við störf á staðnum.
Ökumaður var stöðvaður við almennt umferðareftirlit í hverfi 200. Ökumaður var handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og vegna vörslu fíkniefna. Ökumaður var ekki með ökuréttindi; bifreiðin var ótryggð og voru skráningarmerki bifreiðarinnar fjarlægð.
Tilkynnt var um aðila í annarlegu ástandi er var með ógnandi tilburði í hverfi 220. Aðilinn var tekinn höndum; fluttur á lögreglustöð til vistunar.