Atkvæðagreiðsla blaðamanna í Blaðamannafélagi Íslands um vinnustöðvun hófst í morgun vegna kjaradeilu blaðamanna við útgefendur sem eru innan Samtaka atvinnulífsins. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar liggur nú fyrir.
Blaðamenn samþykktu að fara í verkfall. 83% greiddu atkvæði með vinnustöðvun en 13% voru mótfallnir því. Kjörsókn var 61,2% en á kjörskrá eru 211. Auðir og ógild atkvæði voru fimm talsins.
Atkvæðagreiðslan tók til þeirra fjögurra fyrirtækja sem eru innan Samtaka atvinnulífsins – Árvakurs, Torgs, Sýnar og RÚV.
Kjörfundur hófst klukkan 9:30 í morgun hjá blaðamönnum Morgunblaðsins og mbl.is, á RÚV klukkan 10:30, á Sýn klukkan 11:30 og á Fréttablaðinu klukkan 12:30. Þá höfðu félagsmenn BÍ tækifæri til að greiða atkvæði í húsnæði Blaðamannafélagsins til klukkan 17.00 í dag.
Verkfallið tekur eingöngu til netmiðla og ljósmyndara og tökumanna í fyrstu þremur skiptunum og lengist um fjórar klukkustundir í hvert skipti. Fjórða verkfallið tekur eingöngu til þeirra sem starfa á prentmiðlum og ljósmyndara, en netmiðlarnir
verða í loftinu.
Að öllu óbreyttu munu blaða- og fréttamenn, ljósmyndarar og tökumenn netmiðlanna fara í fjögurra tíma verkfall föstudaginn 8. nóvember frá klukkan 10:00 til 14:00. Síðan föstudaginn 15. nóvember frá klukkan 10:00 til 18:00 og aftur föstudaginn 22. nóvember frá klukkan 10:00 til 22:00
Fimmtudaginn 28. nóvember verður vinnustöðvun hjá blaðamönnum og ljósmyndurum sem vinna í prentútgáfum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins frá klukkan 10:00 til 22:00.
Blaðamannafélagið náði nýjum kjarasamningum við Kjarnann og útgáfufélagið Birtíng í gær.