Föstudagur 25. október, 2024
0.5 C
Reykjavik

Jón Gnarr minnist Ellýjar með mikilli hlýju: „Ég heyri dillandi hlátur hennar óma“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Jón Gnarr ritar fallegan pistil um Ellý Katrínu – þar sem hann segir að „leiðir okkar Ellýjar lágu saman þegar ég varð borgarstjóri 2010. Hún var þá sviðsstjóri yfir Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar. Ég hreifst strax af henni einsog öllum öðrum sviðsstjórum borgarinnar.

Ég áttaði mig fljótt á því, í öllum þeim ólgusjó, sem borgin var að sigla í gegnum þá eftir hrun bankanna og áralangan pólitískan óstöðugleika í, að sviðsstjórarnir, æðstu stjórnendurnir myndu verða hornsteinninn í endurreisn borgarinnar. Þau höfðu reynsluna, þekkinguna, menntunina og ekki síst ástríðuna sem til þurfti. Átti ég einstaklega gott samstarf við þau öll.“

Bætir þessu við:

„Árið 2011 stóðum við meirihlutinn fyrir einhverjum umfangsmestu stjórnkerfisbreytingum sem Reykjavíkurborg hefur farið í gegnum. Embætti Borgarritara var endurvakið sem hluti af því ferli. Borgarritari er yfir miðlægri stjórnsýslu og starfar með borgarstjóra. Margt gott fólk sótti um þá stöðu en fremst meðal jafningja var Ellý Katrín og hreppti hún stöðuna.

Skrifstofa hennar var við hliðina á minni og unnum við mjög náið saman öll þau ár sem ég átti eftir að vinna í Ráðhúsinu. -Þessi kona er með svona 200 í greindarvísitölu ! man ég að ég sagði við Jógu konu mína þegar ég var að reyna að lýsa upplifun minni af samskiptum mínum við Ellý.

Ellý Katrín. Blessuð sé minning hennar.

Hún var ótrúlega greind en hafði líka til að bera þolinmæði, þrautseigju og æðruleysi til að fullnýta greindina. Hæglát og yfirveguð tókst hún þolinmóð á við verkefni dagsins og leysti þau af sinni alkunnu hæversku og lítillæti sem svo gjarnan einkennir gott og gáfað fólk.“

- Auglýsing -

Jón bætir því við að „starfs okkar vegna þurftum við að ferðast mikið saman á ráðstefnur og fundi erlendis. Og þótt við værum gjörólíkir persónuleikar þá tókst með okkur einstök vinátta og engu líkara en við hefðum alltaf verið vinir.

Mér fannst gaman að koma vinkonu minni á óvart, segja eitthvað sem hún hafði ekki átt von á og sjá hana brosa. Mér fannst það líka það minnsta sem ég gat gert í allri þeirri alvöru sem við vorum að takast á við alla daga. Við náðum oft góðum hlátursköstum saman.

Og í gegnum samstarfið kynntist Ellý Jógu konu minni og við Magnúsi manni hennar.“

- Auglýsing -

Hann heldur áfram og færir í tal að honum hafi alltaf verið „minnisstæð ferð sem við fórum öll saman til Færeyja sumarið 2012. Þessi ferð hafði afgerandi áhrif á okkur hjónin. Ég hafði aldrei komið þangað áður og varð fyrir miklum hughrifum. Mér fannst einsog ég hefði verið að uppgötva stað á Íslandi sem ég vissi ekki að væri til. En Ellý var af færeyskum ættum. Móðir hennar var þaðan en hafði ung flust til Íslands.

Ellý var einstaklega stolt af sinni færeysku arfleið.“

Jón minnist á að „það var svo margt sem gerðist í þessari ferð að það væri alltof langt mál að fara að telja það allt upp hér. En það var allt yndislegt. Vinátta okkar hélt áfram eftir að ég hætti hjá borginni. Það tókst líka mikil og öðruvísi vinátta á milli Jógu og Ellýjar. Það var okkur því mikið áfall þegar okkar elskulega og góða vinkona greindist með þennan hræðilega sjúkdóm.

En jafnvel því tók hún af því jafnaðargeði og æðruleysi sem einkenndi allt hennar líf, notaði stöðu sína til að upplýsa aðra og vera fyrirmynd.

Ég og við hjónin höfum fylgt okkar ástkæru vinkonu í gegnum veikindi hennar. Það hefur verið okkur einstaklega sárt að sjá hvernig fjarað hefur undan henni hægt og bítandi. Það er merkileg þjáning að vera manneskja. Þegar Ellý var orðin svo veik að hún var hætt að muna almennilega hver ég var þá fann ég samt alltaf svo sterkt hvað henni fannst vænt um mig og mikið til mín koma. Það var nokkuð sem maður fær ekki skilið nema með hjartanu.“

Jón vill ásamt konu sinni, Jógu, votta „fjölskyldu Ellýjar okkar innilegustu samúð. Við minnumst vinkonu okkar með hlýju og gleði. Þegar ég minnist Ellý Katrínar þá finn ég fyrir skarpri hugsun, umhyggju fyrir öllu manneskjulegu og ástríðu fyrir umhverfismálum. Og ég heyri dillandi hlátur hennar óma. Ég hvet að lokum öll til að kynna sér og styrkja minningarsjóð Ellý Katrínar. Markmið sjóðsins verður að veita árlega styrki til einstaklinga og verkefna sem mæta þörfum þeirra sem greinast með heilabilun, maka og annarra náinna aðstandenda. Öllum sem vilja leggja málefninu lið er bent á eftirfarandi reikning:

nr: 0370-22-087656 kt: 2008647519

Blessuð sé minning elsku Ellý Katrínar Guðmundsdóttur.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -