Tónlistarmaðurinn Helgi Björns verður með tónleika í Fjárhúsinu hjá Ferðafélagi Íslands á laugardagskvöldið komandi. Hann mun þar flytja margar af sínum fegurstu perlum fyrir heimamenn og gesti. Viðburðurinn er á sama tíma og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er í opinberri heimsókn í Árneshreppi. Hann fetar þannig í fótspor forvera sinna, Vigdísar Finnbogadóttur og Ólafs Ragnars Grímssonar sem bæði heimsóttu Árneshrepp.
Reiknað er með að forsetinn mæti sem heiðursgestur á tónleikana. Leiðir hans og Helga lágu saman vorið 2023 þegar Guðni tók lagið með Reiðmönnum vindanna og söng Vertu þú sjálfur. Þessi viðburður var í rúmlega 250 metra hæð á Úlfarsfelli þegar Ferðafélag Íslands stóð fyrir hátíðinni Úlfarsfell 2000. Upptökur með þessum flutningi og söng forsetans hafa fengið metáhorf á samfélagsmiðlum. Þetta er seinasta opinbera heimsókn Guðna sem lætur af embætti um næstu mánaðarmót.
Margir listamenn hafa komið fram í Fjárhúsinu í Norðurfirði undanfarin sumur. Þetta er í fyrsta sinn sem Helgi Björns mætir á svæðið. Víst er að enginn verður svikinn af þeim tónleikum.