Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar hafa fundið íslenska stökkbreytingu sem þrefaldar líkurnar á sjálfsónæmi í skjaldkirtli.
RÚV segir frá því að íslenskur erfðabreytileiki í geni hafi fundist, sem þrefaldar áhættu á sjálfsónæmi í skjaldkirtli. Samkvæmt niðurstöðu rannsókna fær fimm prósent fólks sjálfsónæmissjúkdóminn einhvern tímann á ævinni.
Það voru vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar sem framkvæmdu stóra rannsókn þar sem skoðað var hvvaða erfðabreytileikar stuðluðu að sjálfsónæmi í skjaldkirtli en það er algengasti sjálfsónæmissjúkdómurinn. Lýsir hann sér ýmist í vanvirkum eða ofvirkum skjaldkirtli.
Samkvæmt Sædísi Sævardóttur, vísindamanns hjá Íslenskri erfðagreiningu og einn rannsakenda, komu tvær sjaldgæfar stökkbreytinga í ljós við rannsóknir. „Ein sem finnst bara á Íslandi og önnur sem finnst bara í Finnlandi – sem bentu okkur á sérstakt áhættugen sem er kallað LAG3. Það vill svo til að þessi stökkbreyting sem er bara á Íslandi, hún fimmfaldar líkurnar á vitiligo og hún þrefaldar líkurnar á sjálfsónæmi í skjaldkirtli,“ segir Sædís.“
Að sögn Sædísar bera aðeins um 0,13 prósent einstaklinga þessar stökkbreytingar sem þýðir að um 500 Íslendinga bera þær. Segir hún að þrátt fyrir það sé ekki um að ræða eitthvað sem komi til með að þurfa að skima fyrir í framtíðnni. „Við gátum ekki séð tengsl við áhættu á dauða eða slíkt,“ segir hún.