Miðvikudagur 22. janúar, 2025
-0.3 C
Reykjavik

Tamningamaður tók hross aldraðs hestamanns vegna skuldar: „Ég vissi ekki mitt rjúkandi ráð“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hestamaðurinn Haraldur Stefánsson lenti í bíræfnum hestaþjófi í mars 1988 en litlu munaði að þjófurinn kæmist með hestinn af landi brott. Eða svo hélt Haraldur en hinn meinti þjófur reyndist tamningamaður sem hann skuldaði pening.

Haraldur, sem þá var á áttræðisaldri varð fyrir því að hesti hans var tekinn af tamningamanni sem gaf þá ástæðu að Haraldur skuldaði sér pening. Haraldur kvaðst hafa vissulega nýtt sér þjónustu mannsins og boðið honum 25. þúsund krónur fyrir, sem hann hafi varla viljað þiggja.

Hestur Haraldar var ansi verðmætur enda bróðir einhvers mesta töltara þess tíma. Hinn aldraði Haraldur vissi hvar taminngamaðurinn geymdi hestinn og læddist í fylgd annars manns í skjóli nætur þangað, áður en hann lét lögregluna vita um staðsetninguna, og kom sér inn um glugga á hesthúsinu og teymdi þar hestinn út. Búið var að draga undan honum járnin en slíkt verður að gera ef senda á hest úr landi. Gekk Haraldur með hestinn í kolniðamyrkri sex kílómetra og faldi hann í Breiðholtinu yfir nóttina. Lögreglan mætti svo að hesthúsi tamningamannsins um hálftíma eftir að Haraldur náði hesti sínum aftur, en þá hafði maðurinn verið búinn að setja alla hestana sem í húsinu voru upp í vagn og var kominn langleiðina suður á flugvöllinn. Það mátti því varla á tæpara standa.

Hér fyrir neðan má lesa frétt DV af málinu frá 28. mars 1988:

Kúrekaleikur í Víðidal

Áttræður hestamaður á flótta undan hrossaþjófum

Maður á áttræðisaldri, Haraldur Stefánsson að nafni, varð fyrir því nú á dögunum að hesti hans var stolið og mátti litlu muna að hann missti hann úr landi en þjófamir hugðust selja hann í Þýskalandi.
„Ég kom upp í hesthús á fimmtudaginn og sá þá að hesturinn var löðursveittur. Menn sögðu að þeir hefðu séð einhvern á harðastökki á hestinum þá um daginn.
Á föstudaginn kom ég í hesthúsið um fjögurleytið og þá var hesturinn horfinn. Þjófamir höfðu dregið naglana úr hespunni og þannig gátu þeir opnað húsið. Þeir skildu eftir miða á hurðinni um að þeir hefðu fengið hestinn að láni.
Nú, ég fór upp í hús til þeirra og var enginn þar. Ég vissi ekki mitt rjúkandi ráð og fór heim. Ég hringdi í lögregluna og fór hún að leita hestsins.
Á föstudagskvöldið fór ég aftur upp að hesthúsi þjófanna við annan mann. Við komumst inn um gluggann og fundum minn hest þar og var þá búið að draga undan honum járnin og merkja hann til útflutnings en hesta verður að flytja út skeifulausa. Ég tók hestinn í taum og gekk með hann allt ofan úr Víðidal, meðfram Elliðavatni, og fór niður í Breiðholt við Rjúpnahæð. Allt þetta gekk ég í svartamyrkri og kom sér vel að hafa verið í smalamennsku í gamla daga og kunna að ganga í myrkri. Hestinn faldi ég svo í Breiðholti þá um nóttina. Og það mátti ekki tæpara standa. Lögreglan kom upp í Víðidal hálftíma eftir að ég teymdi hestinn burt og voru þeir þá búnir að setja alla hesta, sem í húsinu voru, í bíla og voru komnir langleiðina suður á flugvöll. Hestinn hefði ég aldrei séð aftur ef ég hefði beðið.

- Auglýsing -

Lögreglan talaði við þjófinn og sagðist hann hafa tekið hestinn af því að ég skuldaði sér peninga. Og það var svo sem engin stórskuld. Ég hafði sett hestinn í tamningu hjá þessum manni í fyrra og borgað honum 25 þúsund krónur fyrir. Hann vildi helst ekki taka við peningunum en falaðist eftir hestinum sem er bróðir einhvers mesta töltara landsins, Snjalls frá Gerðum. Maðurinn hefur komið til mín tvisvar ásamt bróður sínum til að fala hestinn og segja þeir að ég hafi ekkert með svona hest að gera, svona gamall maður hafi nóg með hina tvo hestana sem ég á. Mér skilst að tamningamenn taki 40 þúsund krónur fyrir að temja þannig að skuldin hefur hljóðað upp á fimmtán þúsund krónur.“

Heimildarmenn DV í hestamennsku segja að ekki sé fjarri lagi að meta slíkan hest á 300 þúsund krónur þannig að taxtinn er hár hjá þessum tamningamanni. En hvert verður framhaldið hjá Haraldi?

Ætla að kæra

- Auglýsing -

„Mér finnst að allir séu að ganga eftir því við mig að ég láti þetta ekki kyrrt liggja þannig að ég fer til lögreglunnar strax á morgun og legg fram kæru því það er greinilegt að þjófurinn er ekkert á því að hætta. Hann kom í gærkvöldi á bíl að hesthúsinu, þar sem ég geymi hestana mína, og lýsti það upp með bílljósum til að athuga hvort hesturinn væri geymdur þar inni.“ Til gamans má geta þess að blaðamaður og ljósmyndari DV óku leiðina, sem Haraldur gekk með ójárnaðan hestinn í svartamyrkri á föstudagsnóttina, og reyndist hún um sex kílómetra löng.

Sáttin

En þar með var sagan ekki öll því daginn eftir náðu mennirnir tveir, Haraldur Stefánsson og tamningamaðurinn Orri Snorrason, fullum sáttum. Haraldur borgaði Orra skuldina og féll þá allt í ljúfa löð.

Hér má sjá frétt DV um sáttina:

Hestaþjófnaður í Víðidal:
„Frumhlaup beggja aðila“

– segja deiluaðilar sem hafa náð sáttum

Það má segja að hér hafi verið um frumhlaup beggja aðila að ræða en nú höfum við sæst heilum sáttum og því er ekki meira um málið að segja – það er úr sögunni,“ sögðu þeir Haraldur Stefánsson, hestaeigandi á áttræðisaldri, og Orri Snorrason tamningamaður. Eins og kom fram í DV í gær þá kom upp deila milli þeirra tveggja sem lauk með því að Orri tók hest Haralds úr hesthúsi hans og hugðist selja til útlanda til að fá upp í skuld. Haraldur náði hestinum en hugðist kæra Orra fyrir þjófnað. Sagðist hann vera fallinn frá því núna. „Við erum búnir að gera okkar mál upp. Haraldur hefur greitt upp skuld sína við mig og ekkert meira um það að segja. Við ætlum ekki að standa í neinum illindum, enda færi þá allt í lögfræðikostnað sem kæmi engum að gagni,“ sagði Orri og tók Haraldur undir það. Þeir sögðust hafa átt mikil samskipti í gegnum tíðina og yrði svo áfram. En af hverju tók Orri hest Haralds? „Um beinan hrossaþjófnað var ekki að ræöa því við skildum eftir skilaboð á hurðinni, sem Haraldur skildi því miður ekki alveg,“ sagði Orri. Haraldur sagði að hesturinn færi aldrei úr landi, enda væri þetta mjög efnilegur 7 vetra foli sem hann ætlaði að eiga.

Haraldur og Orri sættast


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -