Líkt og kom fram í fréttum fyrir helgi þá er Ísland komið á gráan lista FATF yfir þau lönd sem eru undir eftirliti, þar sem þau hafa ekki uppfyllt skilyrði um aðgerðir til að sporna gegn peningaþvætti.
Sjá einnig: Ísland á gráan lista vegna peningaþvættis
Lög um peningaþvætti númer 140/2018 tóku gildi 1. janúar 2019, en frumvarp til þeirra laga var lagt fram af Sigríði Á. Andersen þáverandi dómsmálaráðherra 5. nóvember 2018. Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis afgreiddi málið 12. desember, og eftir tvær umræður þann dag varð frumvarpið að lögum með öllun greiddum atkvæðum þingmanna.
Vera Íslands á gráa listanum hefur valdið titringi meðal fjármálafyrirtækja, en í samtali við Mbl.is segist Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir vonast til að Ísland fari af listanum í febrúar eða júní á næsta ári. „Ég tel að það sé lítið sem út af stendur en engu að síður er það alvarlegt að við séum á þessum lista og við munum gera allt í okkar valdi til að fara af honum sem fyrst.“
Þegar heimasíður bankanna eru skoðaðar vekur athygli að tveir þeirra, Arion banki og Landsbanki vísa til eldri laga um peningaþvætti frá árinu 2006, en reglur bankanna eru settar á grundvelli þeirra laga. Virðast þó hvorki reglurnar hafa verið samræmdar núgildandi lögum eða vísan í þau uppfærð á heimasíðum bankanna.
Í fyrstu grein reglna Arion banka segir:
1. TILGANGUR OG GILDISSVIÐ Það er stefna Arion banka að berjast gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og koma í veg fyrir að þjónusta bankans sé misnotuð í slíkum tilgangi. Reglurnar byggja á stefnu bankans um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og lögum nr. 64/2006 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og tengdum stjórnvaldsfyrirmælum. Þær skyldur sem kveðið er á um í reglum þessum gilda um sérhvern starfsmann bankans og stjórnarmenn. Sjá einnig hér
Reglur Landsbankans má sjá hér.
Íslandsbanki vísar hins vegar á heimasíðu sinni til núgildandi laga.