Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Mál Páls verði tekið af Akureyrarlögreglu: „Bendir til algers viljaleysis til að upplýsa málið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Réttargæslumaður Páls Steingrímssonar krefst þess að rannsókn á byrlunarmálinu svokallaða verði tekið af lögreglunni á Norðurlandi eystra og flutt milli lögregluumdæma en rannsókn hefur nú staðið yfir í ríflega þrjú ár. Saksóknari telur hins vegar ekki ástæðu til að færa málið yfir á annað lögregluumdæmi en hefur beðið lögregluna á Norðurlandi eystra að hraða rannsókninni eins og hægt er.

Mannlíf er með undir höndum bréf sem Eva Hauksdóttir, réttargæslumaður Páls Steingrímssonar, sendi ríkissaksóknara þann 9. júlí síðastliðinn. Þar krefst Eva þess að rannsókn á máli skjólstæðings síns verði flutt milli lögregluembætta, sem sagt frá lögreglunni á Norðurlandi eystra yfir á annað lögregluembætti. „Erindið varðar rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eystra á atvikum sem áttu sér stað á Akureyri í maí 2021 og leiddu til þess að skjólstæðingur minn Páll Steingrímsson, fékk stöðu brotaþola í sakamáli,“ segir meðal annars í upphafi bréfsins.

Atvikið sem um er rætt er eitrun fyrrverandi eiginkonu Páls, en hún hefur viðurkennt verknaðinn, stuld á síma hans á meðan hann lá meðvitundarlaus á sjúkrahúsinu á Akureyri og brot gegn friðhelgi einkalífsins en rökstuddur grunur er um að síminn hafi verið opnaður af tæknimanni á RÚV og efni úr honum klónaður yfir í annan síma en þeim gögnum svo dreift á blaðamenn annarra miðla.

Eva segir rannsókn lögreglunnar á Norðurlandi eysta hafa verið „í skötulíki“ og að það virðist sem „lögregluna á Norðurlandi eystra skorti vilja eða getu til að upplýsa málið“.

„Rannsókn hefur nú staðið yfir í meira en þrjú ár. Hún hefur að mínu mati verið í skötulíki og virðist lögregluna á Norðurlandi eystra skorta vilja eða getu til að upplýsa málið. Lítið virðist miða og er það haft eftir saksóknara að vonir standi til þess að rannsókn ljúki bráðlega. Auðvitað ætti rannsókn að vera lokið en þessu er lýst yfir enda þótt helsti sakborningur í málinu hafi ekki verið spurður út í mikilvægustu atriði málsins og þrátt fyrir að sá sem tók við síma brotaþola hafi ekki verið boðaður til yfirheyrslu.“ 

Þá segist Eva hafa gert alvarlegar athugasemdir við rannsókn lögreglunnar á málinu 26. september 2022 og krafist úrbóta með ýtarlegum lýsingum á því hvað þyrfti að rannsaka sérstaklega en að þeim kröfum hafi lítið verið sinnt.

- Auglýsing -

„Jafnframt hefur Ríkisútvarpið það eftir lögreglu að óvíst sé að gögn frá erlendum samskiptaveitum (þar er átt við Google) muni nokkurntíma berast. Þá hefur helsta sakborningi í málinu verið synjað um að fá að tjá sig við lögreglu og leggja fram gögn. Telur undirrituð útséð um að lögreglan á Norðurlandi eystra muni sinna rannsókn málsins af fagmennsku og er því farið fram á að öðru lögregluembætti verði falin rannsókn þess.“

Málsatvik

Eva lýsir síðan málsatvikum í hnotskurn í bréfi sínu til ríkissaksóknara:

- Auglýsing -

„Skjólstæðingur minn, og brotaþoli í málinu, Páll Steingrímsson, starfaði sem skipstjóri hjá Samherja um langt árabil og skrifaði hann nokkrar greinar þar sem hann gagnrýndi umfjöllun fjölmiðla um það fyrirtæki. Þann 3. maí 2021 var Páll fluttur á gjörgæslu með heiftarleg eitrunareinkenni. Töldu læknar einkennin stafa af sljóvgandi lyfi, en hann kannaðist ekki við að hafa tekið nein lyf af sjálfsdáðum. Sennilegast var talið að einkennin hefðu komið fram vegna svefnlyfsins Imovane, sem er lyfseðilsskylt. Virka efnið í því er zopiclone sem getur valdið miklum skaða og jafnvel dauða, sé það tekið í óhóflegu magni, eins og nýlegar rannsóknir staðfesta. Imovane var til á heimili Páls og upplýsti hann síðar lögreglu um að þáverandi eiginkona hans, hefði skömmu áður beðið sig að útvega sér Imovane og hefði hann fengið það uppáskrifað fyrir hana í eigin nafni. Sömuleiðis var til á heimilinu lyfið Tradolan sem einnig getur valdið eitrun. Á meðan skjólstæðingur minn lá nær dauða en lífi á gjörgæslu var sími hans tekinn frá honum og skilað aftur til hans. Þegar hann rankaði við sér aftur mörgum dögum síðar, sá hann að átt hafði verið við símann og voru greinileg merki um að síminn hefði verið „klónaður“, þ.e. að nákvæmt afrit af öllum gögnum sem á símanum voru hefðu verið vistuð og þau gerð öðrum aðgengileg. “

Þá segir Eva að eiginkonan fyrrverandi hafi tjáð lögreglu að hún hafi tekið símann og komið honum í hendur starfsmanns Ríkisútvarpsins. Hún sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi og hafi talið að menn á vegum Samherja vildu sér illt og „að eina leiðin til að forða sér frá hættu væri að koma til fjölmiðla upplýsingum“ sem skjólstæðingur Evu byggi yfir. Segir Eva að það sé „hafið yfir skynsamlegan vafa“ um að eiginkonan fyrrverandi hafi tekið síma Páls og komið í hendur blaðamanna. „Bendir margt til þess að verknaðurinn hafi verið fyrirfram skipulagður og einhverjir fjölmiðlamenn verið með í ráðum.“

Í bréfinu útlistar Eva allt það sem rannsókn lögreglu ætti að snúa að, samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggi en það er eftirfarandi:

    1. hvort skjólstæðingi mínum hafi verið vísvitandi byrlað sljóvgandi lyf
    2. ef svo er, hver sé ábyrgur og hvort einhverjir aðrir hafi átt hlut að máli eða vitað af því
    3. hvort tengsl séu milli skyndilegra veikinda Páls og þess að sími hans var tekinn
    4. hver tók við símanum og í hvaða tilgangi
    5. hvort aðrir, og þá hverjir, hafi á einhverjum tíma haft aðgang að gögnum úr símanum
    6. hvort síminn var afritaður í heilu lagi og ef svo er, hvað varð um afritið
    7. ef síminn var afritaður, hver gerði það og í hvaða tilgangi
    8. hvort gögnin eru ennþá öðrum aðgengileg og þá hverjum

„Rannsókn lögreglu virðist aðeins að litlu leyti hafa beinst að ofangreindu og bera gögn málsins ekki með sér hvað er í raun til rannsóknar. Þá hefur lögreglan á Norðurlandi eystra ekki gripið til augljósra ráða til að upplýsa um þessi atriði,“ segir Eva í bréfinu eftir þessa útlistun.

Eldri athugasemdir

Aukreitis telur Eva upp þær athugasemdir sem hún bar fram við lögreglu vegna rannsóknarinnar árið 2022.

Fyrsta athugasemdin snýr að skýrslatökum sem hófust að mati Evu allt of seint. Eiginkonan fyrrverandi, sem grunur er um að hafa byrlað skjólstæðingi hennar lyf, hafi ekki verið yfirheyrð fyrr en fimm mánuðum eftir að kæra var lögð fram.

Aðrar athugasemdir eru eftirfarandi:

„Þótt kærða játaði að eigin frumkvæði að hafa byrlað skjólstæðingi mínum lyf var hún ekki spurð út í tegund, magn eða neitt annað sem máli skipti, heldur komst verjandi upp með að stöðva yfirheyrslu í miðri játningu.

Rökstuddur grunur um lyfjabyrlun var hundsaður þar til var orðið of seint að fá lyfjabyrlun staðfesta með lífsýni. 

Merki um að tilræðið hafi verið fyrirfram skipulagt og með vitund annarra sakborninga hafa lítt verið rannsökuð. Blaðamenn sem grunaðir eru um að hafa tekið við síma skjólstæðings míns og dreift upplýsingum úr honum voru yfirheyrðir um fréttaskrif sín um svokallaða „skæruliðadeild Samherja“ en ekki um aðkomu sína að málinu.

Ekki er að sjá að lögreglan hafi á nokkurn hátt reynt að komast að því hvað varð um síma brotaþola og þar með um viðkvæm gögn um einkalíf hans og fjölskyldu hans eða reynt að koma í veg fyrir frekari brot.“ 

Segir Eva í bréfinu að ofandgreindum athugasemdum og kröfu um almennilega rannsókn hafi ekki veirð sinnt. „M.a. var farið fram á dómkvaðningu matsmanns til að meta hvort ástand brotaþola frá 3.-9. maí skýrist að einhverju eða öllu leyti af lyfjum sem hann kannast ekki við að hafa tekið af eigin frumkvæði,“ segir Eva og heldur áfram: „Greinargerðir réttarmeinafræðinga og Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði hafa engu ljósi varpað á veikindi Páls og verður ekki séð að frekari rannsókn hafi verið gerð á tildrögum veikindanna þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um og þrátt fyrir að lögreglan hafi tekið undir þá skoðun að ástæða væri til að fá álit lyfjafræðings.

Nýjar athugsemdir

Þá útlistaði Eva einnig nýjar athugasemdir við rannsókn lögreglu

Meðal nýrra athugasemda er sú að vegna þess hve seint lögreglan hóf rannsókn eða mörgum vikum eftir að kæra var lögð fram, hafi verið oft seint að greina eitrun í blóði eða þvagi. „Það hefði þó verið hægt að greina eiturefni í hári mörgum vikum eftir það. Það var ekki gert og því borið við að það þjónaði ekki tilgangi þar sem brotaþoli hefði látið snöggklippa á sér hárið. Að sjálfsögðu hefði þó mátt rannsaka líkamshár en það var ekki gert. 

Þá liggi fyrir gögn að sögn Evu „sem benda eindregið til þess að starfsmaður Ríkisútvarpsins hafi vitað af því“ að fyrrverandi eiginkona Páls hygðist stela síma hans. „Skömmu fyrir atvikið tók Ríkisútvarpið í notkun óskráð símanúmer sem er svo líkt símanúmeri skjólstæðings míns að ótrúlegt er að það sé tilviljun. Telur skjólstæðingur minn einsýnt að símanúmerið hafi verið keypt sérstaklega til að afrita síma hans. Lögreglan hefur, mér vitanlega, ekki gert neinn reka að því að yfirheyra útvarpsstjóra um það í hvaða tilgangi Ríkisútvarpið lét starfsmanni sínum í té óskráð símanúmer eða hvort hann og/eða annað starfsfólk RUV hafði einhverja vitneskju um samskipti blaðamanna RÚV við Þórunni Halldórsdóttur í aðdraganda veikinda Páls eða eftir að hann veiktist. Útvarpsstjórinn hafði allavega ekki verið boðaður til skýrslutöku þann 22. febrúar sl. og má helst skilja á lögreglu að það standi ekki til.

Enn ein athugasemdin snýr að staðhæfingu lögreglunnar á Norðurlandi eystra að rannsóknin strandi á því að ekki hafi fengist gögn frá Google sem varpað gæti ljósi á málið. „Fyrir liggja gögn sem virðast sýna að lögreglan hafi ekki kallað eftir gögnum frá google fyrr en í janúar 2023. Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli hefur lögreglan ekki fengist til að afhenda réttargæslumanni afrit af þeim samskiptum sínum við Google sem áttu sér stað eftir 2. febrúar 2023.“ Segist Eva margoft hafa leitað til Google vegna lögmannsstarfa sinna og alltaf hafi henni verið svarað greiðlega og að samkvæmt upplýsingum á netinu taki það venjulega Google um tvo mánuði að afhenda gögn.

Eva ritar: „Ótrúverðugt er að Google hundsi beiðni frá lögreglu, hvað þá í meira en ár, og telur undirrituð mögulegt að lögreglan hafi ekki verið í reglulegum samskiptum við Google vegna þessarar gagnaöflunar. Að auki er líklegt að lögreglan hafi ekki óskað eftir gögnum fyrr en það var orðið um seinan en erfitt er að sjá að ástæða hafi verið til að draga það í 20 mánuði að óska eftir þessum gögnum.“

Þá segir Eva að eiginkonan fyrrverandi hafi margsinni haft samband við Pál að eigin frumkvæði og gefið honum upplýsingar um aðkomu blaðamanna að málinu. Þrátt fyrir að lögreglan viti af því, hafi hún ekki verið boðuð til skýslutöku og „spurð út í þau atriði sem hún hefur rætt við brotaþolann og hefur heldur ekki fengist staðfest að það standi til.

Þá snýr ein athugasemdin að því að Eva hafi bent lögreglunni á að skjólstæðingur hennar hefði komist að því hvaða maður hefði tekið við síma hans úr höndum fyrrverandi eiginkonu Páls en hún hafði sjálf sagt honum hver það væri. „Lögreglan hafði ekki meiri áhuga á málinu en svo að farið var fram á að skjólstæðingur minn hefði samband við lögreglu sjálfur, sem hann gerði.“ Í kjölfarið hafi lögreglu verið afhent símtal þar sem eiginkonan fyrrverandi nafngreinir manninn sem hún segist hafa afhent símann. „Hefur sá maður mér vitanlega ekki komið við sögu í rannsókn lögreglu. Þrátt fyrir að skjólstæðingur minn hafi gengið eftir því hefur lögreglan ekki gefið honum neinn ádrátt um að maðurinn verði yfirheyrður.“

Eva bendir einnig á að vitni hafi sagt Páli að 11. júní síðastliðinn hafi vitnið hitt fyrrverandi eiginkonu Páls á lögreglustöðinni á Akureyri en þar hafi hún verið með „þykkan bunka af gögnum“ og hafi beðið um að fá að tala við ákveðinn lögreglumann. Henni hafi hins vegar verið synjað um að fá að hitta lögreglumanninn og ekki boðið að hitta neinn annan og „að þrátt fyrir að hún ítrekaði þá beiðni hafi hún ekki fengið nein svör um það hvenær hægt yrði að taka á móti henni.“

Síðasta athugasemdin snýr að ummælum varasaksóknara um málið.

„Að lokum má það undrum sæta að í máli þar sem fyrir liggur rökstuddur grunur um tilraun til lyfjabyrlunar sem hefði getað leitt til dauða brotaþola, skuli varasaksóknari lýsa því yfir við fjölmiðla að málið sé ekki í forgangi þar sem „stærri mál“ sitji fyrir. Auk þess sem slík ummæli eru til þess fallin að valda brotaþola miska, benda þau eindregið til þess að lögreglan á Norðurlandi eystra taki rannsókn málsins ekki alvarlega og var þó fyrir gnótt vísbendinga þar um. Undirrituð telur með öllu óásættanlegt að rannsókn á mögulegu banatilræði sé á höndum lögregluembættis sem setur málið í flokk með óknyttum á borð við reiðhjólastuld eða ölvun á almannafæri.“

Að lokum segir Eva að „handarbakavinnubrögð lögreglu“ í málinu séu „með öllu óviðunandi og ósæmandi í landi sem nýtur viðurkenningar sem réttarríki.“ Bætir hún við: „Ekki er nóg með að lögreglan hafi allt of lítið gert til að rannsaka málið heldur er einnig erfitt að fá rannsakendur til að taka til greina gögn sem aðrir beinlínis leggja upp í hendurnar á þeim. Umfram allt er það með ólíkindum að sakborningi, sem grunaður er um lífsógnandi lyfjabyrlun og gefur sig fram á lögreglustöð, sé neitað um viðtal. Bendir það til algers viljaleysis lögreglunnar á Norðurlandi eystra til að upplýsa málið.

Í lokaorðum sínum krefst Eva að ríkissaksóknari kalli eftir gögnum um samskipti lögreglunnar og Google og að málið verði flutt til annars lögregluembættis.

Fjöldi fylgiskjala fylgdu bréfinu, málinu til stuðnings en verða ekki tíunduð hér.

Svar ríkissaksóknara

Ríkissaksóknari svaraði bréfi Evu 12. júlí síðastliðinn en þar segist hann hafa haft samband við lögreglustjórjann á Norðurlandi eystra og óskað upplýsinga um framgang rannsóknarinnar og fengið þau svör að rannsóknin sé enn í gangi og til meðferðar hjá rannsóknardeild embættisins. Þá hafi lögreglustjórinn sent ítrekun vegna óska sinna um afhendingu gagna frá erlendum samskiptaveitum. Því telji ríkissaksóknari ekki „efni til frekari aðgerða af sinni hálfu að svo stöddu“ en hafi óskað eftir því að lögreglan hraði rannsókn sinni.

Hér má lesa bréfið í heild sinni:

„Ríkissaksóknara barst bréf þitt dags. 9. júlí 2024 þar sem gerðar athugasemdir við rannsókn ofangreinds máls hjá lögreglu og gerð er krafa um að rannsókn málsins verði flutt milli lögregluumdæma. Undirrituð hafði samband við embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra og óskaði eftir upplýsingum um framgang rannsóknar í ofangreindu máli og fékk m.a. þær upplýsingar að rannsókn málsins væri ekki lokið og væri til meðferðar hjá rannsóknardeild embættisins. Þá hafi lögreglustjóri sent ítrekun vegna réttarbeiðna sem tengjast ósk lögreglustjóra um afhendingu gagna frá erlendum samskiptaveitum þann 27. maí sl. og þar áður þann 13. febrúar sl. 

Ríkissaksóknari telur ekki efni til frekari aðgerða af sinni hálfu að svo stöddu en hefur framsent lögreglustjóra athugasemdir þínar við rannsókn málsins og einnig hefur ríkissaksóknari óskað eftir því við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra að hraða rannsókn eins og hægt er. Sé óskað eftir frekari upplýsinga um stöðu málsins eða eftir afhendingu gagna í málinu er hægt að hafa samband við embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra. 

Hulda María Stefánsdóttir 

saksóknari“

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -