Héraðssaksóknari og formaður nefndar um eftirlit með lögreglu telja vankanta á eftirliti með starfsemi og starfsháttum lögreglu. Telja þeir að óheppilegt sé að sami aðili rannsaki bæði brot gegn valdstjórninni og kærur á hendur lögreglu.
Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag.
Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata hefur lagt fram tillögu um sjálfstætt eftirlit með lögreglu og vill hann að sérstök stofnun á vegum Alþingis muni sinna því eftirliti. Hlutverk hennar væri meðal annars að hefja athugun mála að eigin frumkvæði, taka við kærum einstaklinga sem telja að lögregla hafi brotið gegn réttindum sínum og rannsaka ætluð brot lögreglumanna í starfi.
„Það gerist oft að sama atvik leiðir til rannsóknar á meintu valdstjórnarbroti og rannsóknar á meintu broti lögreglu í starfi. Það getur verið óheppilegt,“ segir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari. Héraðssaksóknari fer með ákæruvald í alvarlegustu brotum á hegningarlögum svo sem manndráp og alvarleg líkamsárásarmál og kynferðisbrotamál. Slík mál eru rannsökuð af lögreglustjórum, hverjum í sínu umdæmi.
„Lögreglumenn sem koma að þessum málum eru því oft vitni þegar málin fara fyrir dóm og kallar það á nokkur samskipti við lögreglumenn,“ segir Kolbrún. Hún bendir einnig á að brot lögreglumanna sem framin eru utan vinnutíma, séu rannsökuð af viðkomandi lögreglustjóra eins og önnur brot. „Það getur að sjálfsögðu verið óheppilegt að samstarfsmenn rannsaki brot vinnufélaga sinna. Öll umræða um málaflokkinn er hins vegar af hinu góða enda miklir hagsmunir fólgnir í því að traust ríki um hann, bæði hjá borgurunum og eins hjá starfsmönnum lögreglu,“ segir Kolbrún.