„Það eru til og hafa alla tíð verið til bröndóttar kýr. Sumar þessara kúa hafa þótt illar í skapi og átti ég eitt sinn eina slíka,“ skrifar Ámundi Loftsson, fyrrverandi kúabóndi, um fyrirbærið bröndóttar kýr. Ámundi ritar þetta í athugasemd við þráð á Facebook þar sem spurt er hvort kýr geti verið bröndóttar rétt eins og kettir. Ámundi lýsir biturri reynslu sinni af einni slíkri mannýgri kú. „Svo bar við eitt sinn að dóttir mín Hulda, þá lítill stelpuangi kom í fjósið til pabba með glerkrukku og vildi fá spenvolga mjólk. Þá var ég að undirbúa mjaltir á þessari kú. Skipti þá engum togum að kýrin sparkaði stelpuskinninu þvert yfir fjósið með tilheyrandi skelk og gráti,“ skrifar Ámundi sem brást skjótt við og losaði sig við þá bröndóttu.
