Reiðhjólamaður féll fram af kletti við Jökulsárgljúfur laust eftir hádegi í dag. Samferðamaður hans slasaðist einnig þegar hann reyndi að hjálpa honum.
Lögreglan á Norðurlandi eystra birti rétt í þessu Facebook-færslu þar sem sagt er frá björgunaraðgerðum við Jökulsárgljúfur en rétt eftir hádegi í dag féll þar reiðhjólamaður fram af klettum Félagi hans slasaðist svo einnig er hann gerði tilraun til þess að bjarga honum. Vegna þess hversu erfitt var að komast að þeim slösuðu var ákveðið að kalla eftir aðstoð björgunarsveita.
„Laust eftir hádegi í dag kom tilkynning til lögreglu og sjúkraflutningamanna á Húsavík um reiðhjólaslys við Jökulsárgljúfur. Þar hafi reiðhjólamaður fallið fram af kletti og þá hafði samferðamaður hans einnig slasast við að reyna að koma honum til aðstoðar.
Þar sem ljóst var í upphafi að erfitt gæti verið að komast til þessara aðila voru björgunarsveitir frá Húsavík, Kópaskeri og Mývatnssveit ræstar út og síðar var Akureyri bætt í þann hóp. Þá var óskað eftir aðstoð frá þyrlu LHG.“
Segir í færslu lögreglunnar að hjólreiðamennirnir hafi verið á leið sinni upp með ánni er annar þeirra féll af hjólinu fram af klettabrún. Mennirnir hafi báðir verið fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunna til Akureyrar til aðhlynningar.