Hjörtur Þórarinsson, fyrrverandi skólastjóri, er látinn 97 ára að aldri en mbl.is greindi frá andlátinu. Hjörtur fæddist á Miðhúsum í Reykhólahreppi en flutti að Reykhólum 12 ára gamall en hann var sonur Þórarins Árnasonar og Steinunnar Hjálmarsdóttur. Hjörtur lauk kennara- og söngkennaranámi árið 1948 og íþróttakennaranámi ári síðar. Hann kenndi bæði á grunn- og framhaldsskólastigi um allt land frá 1949 til 1980 og var einnig skólastjóri á Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði 1961-78. Árið 1980 tók Hjörtur svo við starfi sem framkvæmdastjóri Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga. Hann var virkur í félagsstörfum og starfaði meðal annars í Frímúrarareglunni, söng í ýmsum kórum og var formaður Félags eldri borgara á Selfossi frá 1999 til 2013. Hjörtur lætur eftir sig eina dóttur.