Alexandra Helga Ívarsdóttir færði Ernu Magnúsdóttur forstöðumanni Ljóssins 600 þúsund krónur í dag.
Alexandra Helga kynnti sér um leið starf Ljóssins, sem er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess. Markmið Ljóssins er að fólk fái sérhæfða endurhæfingu- og stuðning, þar sem fagfólk aðstoðar við að byggja upp líkamlegt og andlegt þrek, auk þess að fá stuðning við að setja sér markmið sem auka daglega virkni og hafa þannig áhrif á lífsgæði almennt.
Alexandra Helga ákvað í byrjun september að taka til í fataskápnum og halda í Trendport, sem er vettvangur fyrir fólk sem vill selja notaðar flíkur, með það að markmiði að safna pening fyrir Ljósið. Hún lét ekki staðar numið þar heldur ákvað einnig að bjóða upp áritaða treyju eiginmanns síns, Gylfa Sigurðssonar fótboltakappa, og bæta við upphæðina.
„Við segjum það oft í Ljósinu að við séum umkringd dásamlegu fólki sem geri það að verkum að endurhæfingarstarfið blómstri líkt og það gerir. Við sendum Alexöndru, Trendporti og öllum þeim sem ákváðu að leggja góðu málefni lið, okkar bestu þakkir,“ segir á vef Ljóssins.