Fimmtudagur 9. janúar, 2025
-4.2 C
Reykjavik

Lofaði dóttur sinni því að kaupa Rangá

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Bjarni Þór Logason keypti hina gamalgrónu hverfisverslun Rangá í Skipasundi í sumar og hefur rekið hana síðan í júlí. Hann segir ástæðuna fyrir kaupunum einfalda; hann hafi lengi starfað innan verslunargeirans en alltaf dreymt um að eiga sína eigin verslun. Þar ofan á bætist að hann búi í hverfinu og viti hversu miklu máli hin áttatíu og átta ára gamla verslun Rangá skipti fyrir íbúana.

 

„Ég tók við rekstrinum hérna 10. júlí,“ segir Bjarni þegar honum loks gefst tóm til að tala við okkur. „Ég tengdist þessari búð ekkert fyrir þann tíma,“ bætir hann við. „Ég bara bý hérna í hverfinu.“

En hvernig dettur nokkrum manni í hug að gerast kaupmaðurinn á horninu á þessum síðustu og verstu tímum, eru þeir ekki allir að fara á hausinn?

„Þeir eru allir farnir á hausinn,“ segir Bjarni og hlær við. „En þessi verslun er áttatíu og átta ára gömul og hefur staðið af sér ansi margt í gegnum tíðina. Ég er viðskiptafræðingur og skoðaði reksturinn vel áður en ég ákvað að kaupa, sá að þetta var vel rekið fyrirtæki svo ég ákvað að kýla bara á þetta.“

Trygglyndustu viðskiptavinirnir

Bjarni hefur lengi unnið verslunarstörf, byrjaði hjá 10-11 fór þaðan í Hagkaup og síðan á skrifstofu Ölgerðarinnar svo hann segist þekkja verslunarrekstur ansi vel frá báðum hliðum. Draumurinn um eigin verslun hafi þó alltaf blundað undir niðri og þetta leggist vel í hann.

- Auglýsing -

„Þetta leggst bara vel í mig, já,“ segir hann. „Salan hefur verið stöðug síðan ég tók við. Viðskiptavinir Rangár eru rosalega dyggir, mikið af fastakúnnum sem eru trygglyndustu viðskiptavinir sem ég hef kynnst, enda er það stórt atriði í þeirra huga að missa ekki kaupmanninn á horninu.“

Er þetta samt ekki hálfvonlaust dæmi? Er einhver möguleiki að vera samkeppnisfær við stórmarkaðina?

„Það fer nú eftir því við hvaða stórmarkaði þú miðar,“ segir Bjarni. „Ég keppi ekkert við lágveruverðsverslanir en ég er samkeppnisfær við aðra. Ég er til dæmis búinn að lækka verðið á hátt í tvö hundruð vörum síðan ég tók við rekstrinum, bara með því að endursemja við birgja.“

- Auglýsing -

Spurður hvort það sé einhvers konar hugsjón hjá honum að sinna verslunarrekstri fyrir nærumhverfi sitt dregur Bjarni við sig svarið.

Ég hef lagt mig fram um að breyta ekki miklu, hélt öllu starfsfólkinu og svo framvegis, þótt ég sé aðeins að brydda upp á nýjungum með,“ segir Bjarni.

„Nei, í rauninni ekki,“ segir hann hugsi. „Ég var að vinna á skrifstofu hjá Ölgerðinni í tvö ár og þar var dagurinn lengi að líða. Hérna er hann mjög fljótur að líða. Mér finnst gaman að vinna í búð og mig hefur alltaf langað til að eiga eigin verslun. Þótt það hafi verið mjög gaman að vinna í Hagkaup, frábært fólk og svona, þá hefur það verið minn draumur síðan ég byrjaði að vinna í búð í kringum aldamótin að eiga mína búð sjálfur.“

Finnst töff að eiga búð með pabba

Eins og fram er komið býr Bjarni í hverfinu með fjölskyldu sinni, eiginkonu og þremur börnum, er þetta ekki ófjölskylduvænt starf, er hann ekki alltaf í vinnunni?

„Jú, jú, en ég var það hvort eð er,“ segir hann og brosir. „Það sem er öðruvísi þegar maður ræður sér sjálfur er að nú geta krakkarnir komið og hjálpað til í búðinni. Saga dóttir mín, sem er níu ára, á sinn eigin verslunarslopp hérna og nafnspjald og kemur stundum og aðstoðar við áfyllingar og svona. Henni finnst þetta óskaplega spennandi, en bræður hennar eru eins og fimm ára þannig að þeir eru lítið farnir að spá í þetta enn þá. Henni finnst það mjög töff að geta sagt krökkunum að hún eigi búð með pabba.“

Saga tengist reyndar draumi Bjarna um að kaupa Rangá frá upphafi.

„Við tvö fórum stundum hingað að versla áður en ég keypti,“ útskýrir hann. „Og ég sagði við hana í fyrsta sinn sem við komum að ég ætlaði að kaupa þessa búð einhvern tímann og hún man alveg eftir því. Og er mjög stolt af mér fyrir að hafa staðið við það.“

„Erlendis er verslun víða að færast aftur inn í hverfin. Flestir risarnir, eins og Walmart og svona, opna miklu minni búðir í dag en áður vegna þess að fólk vill hafa þjónustuna nær sér.“

Sömu fastakúnnar síðan 1970

Hvernig er viðskiptavinahópurinn samsettur? Er það mest eldra fólk sem heldur tryggð við hverfisbúðina eða er þetta fólk á öllum aldri?

„Það er allur skalinn,“ segir Bjarni. „Þetta er gamalt og mjög rótgróið hverfi en það hefur orðið mikil endurnýjun hérna. Fyrri eigendur skiluðu mjög góðu starfi, það er algjört afrek að hafa náð að halda þessari búð gangandi í gegnum allt, en ég hef aðeins reynt að bregðast við breyttri íbúasamsetningu hverfisins. Hef til dæmis lagt mig fram um að lækka verð á nauðsynjum fyrir fjölskyldufólk. Mesta salan er samt til eldri einstaklinga sem hafa búið hérna lengi. Þeir gera sín heildarinnkaup hérna og hafa gert mjög lengi. Ein hjón sem koma nánast daglega hafa til dæmis verslað hérna síðan áður en fyrri eigendur tóku við, 1971, þannig að þau hafa verslað hérna ansi lengi og eru mjög ánægð með að verslunin skuli enn vera í rekstri. Ég hef lagt mig fram um að breyta ekki miklu, hélt öllu starfsfólkinu og svo framvegis, þótt ég sé aðeins að brydda upp á nýjungum með.“

Bjarni er bjartsýnn á framtíð hverfisverslana og bendir á að þróunin erlendis miði að því að færa þjónustu meira út í hverfin.

„Erlendis er verslun víða að færast aftur inn í hverfin,“ bendir hann á. „Flestir risarnir, eins og Walmart og svona, opna miklu minni búðir í dag en áður vegna þess að fólk vill hafa þjónustuna nær sér. Nú er fólk farið að ganga og hjóla miklu meira en það gerði og leggja bílnum þannig að það er mjög ánægt með að vera með matvöruverslun í göngufæri.“

Ein rómantíkin í kringum kaupmanninn á horninu felst í því hversu miklu meiri nánd skapist á milli starfsfólks hverfisverslana og viðskiptavina en í stærri búðum. Bjarni segir það enga goðsögn.

„Alla vega er það þannig hérna,“ segir hann. „Meðalstarfsaldur starfsfólksins er yfir tíu ár og þau þekkja nánast alla kúnnana með nafni. Svo hittir fólk nágranna sína hérna og spjallar, talar um Þrótt og kvenfélagið og allt sem er í gangi hér í hverfinu þannig að þetta er líka dálítil félagsmiðstöð í leiðinni.“

Spurður hvort hann sjái fyrir sér að hann standi við búðarborðið í Rangá fram á eftirlaunaaldur segist Bjarni ekki vita neitt um það, hann hafi ekki sett sér nein tímamörk.

„Þetta er skemmtilegasta vinna sem ég hef verið í,“ segir hann. „Og á meðan þetta gengur vel er ég ánægður.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -