Mögulegt er að það muni gjósa aftur á Reykjanesinu við Sundhnúkagígaröðina í næstu viku samkvæmt Lovísu Mjöll Guðmundsdóttur, náttúruvársérfræðingur Veðurstofu Íslands.
„Ef til goss kemur, þá er þetta ein til tvær vikur. Kerfið er í rauninni svo gott sem að verða tilbúið. Svo er bara spurning hvort að kvikan nái upp eða ekki. Það hafa orðið kvikuhlaup þar sem verða ekki gos. Það eru allir á tánum og það er vel fylgst með,“ sagði hún við mbl.is um málið.
Hún segir jafnframt að það þurfi að gera ráð fyrir að fyrirvarinn verði lítill þó að hingað til hafi verið einhver fyrirvari.
Hættulegt í Grindavík
Þá segir lögreglustjórinn á Suðurnesjum að ekki sé hægt að útiloka að gossprungur geti opnast í Grindavík og mælir gegn því að fólk dvelji þar en dvalið var í 34 húsum síðastliðna nótt.
„Lögreglustjóri mælir alls ekki með því og getur ekki ábyrgst öryggi þeirra við núverandi aðstæður,“ segir í tilkynningu lögreglu.