Listahátíðin List án landamæra verður haldin dagana 5. til 20. október í Gerðubergi. Auk þess verða ýmsir viðburðir hátíðarinnar haldnir víða um borg.
List án landamæra er listahátíð sem leggur áherslu á list fatlaðs fólks. Tilgangur hátíðarinnar er að auka menningarlegt jafnrétti og fjölbreytni með því að skapa faglegan vettvang og tækifæri fyrir fatlaða listamenn.
Hátíðin hefst laugardaginn 5. október kl. 15:00 í hátíðarsal Gerðubergs og mun Eliza Reid forsetafrú setja hátíðina. Hún mun þá veita Atla Má Indriðasyni viðurkenningu en hann er listamaður hátíðinnar 2019.
Samsýning Listar án landamæra opnar samhliða opnunarhátíðinni í sýningarrými Gerðubergs á fyrstu hæð. 17 listamenn sýna þar verk sín.
Helgina 12. -13. október verður svo haldinn listamarkaður þar sem fjöldi listamanna mun selja verk sín og handverk.
Dagskrá Listar án landamæra má sjá á heimasíðu hátíðarinnar.