Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur telur að næsta eldgos á Reykjanesi verði stærra en þau gos sem hafi komið upp á svæðinu áður en verði að öðru leyti svipuð.
„Þessi kvikugeymsla er allavega búin að safna meiru en fyrir síðasta gos. Eitthvað hafa þolmörkin breyst, kannski er það bara eitthvað smotterí og gosið þá væntanlegt á næstu klukkutímum eða dögum ef það fylgir þessu fyrra ferli,“ sagði Þorvaldur við Vísi um málið.
Þorvaldur segir að miðað við fyrri reynslu muni gosið koma upp á svipuðum slóðum eða rétt suðaustan við Stóra Skógfell. Út frá því muni opnast sprunga til norðurs og suðurs. Hann á þó ekki von á að það komi upp gos innan Grindavíkur.
„Það er ákveðin lína á sunnanverðu Reykjanesinu, þar sem við höfum enga gíga og engar sprungur. Á síðustu 14-15 þúsund árum hefur aldrei gosið sunnan við þessa línu. Við vitum ekki um neina gíga sem eru innan bæjarmarkanna,“ en flestir sérfræðingar telja að næsta eldgos á svæðinu sé á næsta leiti.