Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

„Að drepa tugi þúsunda kvenna, barna, gamalmenna og særa enn fleiri er nýtt met í ómennsku“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tónlistarmaðurinn Ingólfur Steinsson ritar grein sem ber yfirskriftina: Þjóðar­morð með vest­rænum vopnum.

Hefst á þessum orðum:

„Ég skrifaði nokkrar greinar eftir að geðveikin á Gaza hófst. Taldi mig hafa sagt mitt síðasta orð í byrjun ársins. Maður hélt e-n veginn að þessu myndi brátt ljúka. Annaðhvort að tekið yrði fyrir fjöldamorðin af viti bornum Vesturlöndum eða að stríðsaðilar sæju sóma sinn í því að gera vopnahlé og hætta fjöldamorðum á almenningi.“

Bætir við:

„Nú hefur komið í ljós að hvorugt er á döfinni. Allt síðan Ísraelsríki var svo ólánlega fundinn staður í Palestínu hefur það átt í fullu tré við nágranna sína. Frá upphafi, fyrir rúmum 75 árum, hafa Ísraelsmenn getað reitt sig á vestrænan stuðning. Að hluta er þessi saga með þeim ólíkindum sem holocaustið markaði henni.“

Ingólfur færir í tal að „andúð á gyðingum hafði verið landlæg í Evrópu og Bandaríkjunum á fjórða áratugnum og reyndar miklu lengur. Við þurfum ekki að leita lengra en til íslenskra stjórnvalda til sönnunar á því. Allmörgum þýskum fjölskyldum gyðinga hafði verið neitað hér um hæli og þær sendar til baka út í opinn dauðann. Því var það svo að hinn vestræni heimur, með bakþanka sína, vildi taka þátt í að finna þessari sárt leiknu þjóð samastað til frambúðar. Gyðingar höfðu tekið að setjast að í landinu helga eða Síon, (eftir fjallinu), á síðari hluta 19. aldar. Þaðan er orðið síonismi komið, hreyfing sem varð til á svipuðum tíma. Frá upphafi var orðið notað um þá sem vildu stofna þjóðarheimili gyðinga í Palestínu.“

- Auglýsing -

Hann ljær máls á því að „síonistar voru almennt á þeirri langsóttu skoðun að þarna ætti þjóðarheimilið að vera þar sem þeir höfðu búið fyrir næstum 2000 árum. (Svipað og ef við myndum krefjast lands í Noregi vegna búsetu forfeðranna þar.) Og þó að gyðingdómur hafi að sönnu gefið kristninni ýmislegt, hefur mér alltaf þótt hugmyndin um guðs útvalda þjóð fremur hjákátleg að maður tali nú ekki um að vitna í helgisagnir eins og að hann/hún hafi gefið þeim landið.“

Ingólfur nefnir að við upphaf „fyrra stríðs 1914 bjuggu í landinu helga um 56 þúsund gyðingar og 700 þúsund arabar. Því að þessi hugmynd um þjóðarheimili gyðinga í Palestínu hafði einn augljósan galla. Það bjó fólk fyrir í landinu. Fyrir seinna stríð áttu gyðingar u.þ.b. 5 % landsins en nú voru uppi hugmyndir um að þeir skyldu fá meira en helming þess og það bestu ræktarlöndin. Þetta gátu arabar á svæðinu ekki þolað og smám saman jukust skærur milli þessara aðila. Bretar sem höfðu stjórnað þarna drógu sig í hlé.“

Hann segir að „í stuttu máli var ríki gyðinga stofnað í maí 1948. Arabar höfðu mótmælt þessum hugmyndum frá upphafi og nú réðust þeir gegn hinu nýstofnaða ríki. Gyðingar voru alltaf vel studdir af Vesturlöndum og miklu betur vopnum búnir. Vopn araba voru gömul og úr sér gengin. Til að gera langa sögu stutta voru háð allmörg stríð á milli þessara aðila sem síonistar unnu öll. Með síaukinni aðstoð Vesturlanda (í seinni tíð aðallega USA) hafa átökin milli þeirra og Palestínu, sem þeir hafa hersetið frá 1967, líkst æ meira leiks kattarins að músinni.“

- Auglýsing -

Ingólfur segir að árásin þann 7. október síðastliðin hafi þess vegna ekki komið á óvart:

„Þetta var enn ein örvæntingarfull tilraun til þess að minna á vandamál Palestínu sem voru fallin í skuggann. Arabaríkin höfðu verið að friðmælast við Ísrael og nú var samningur við Saudi-Arabíu nánast tilbúinn. Árásin breytti stöðunni fullkomlega. Þó að ég sé ekki trúaður á þau óhæfuverk sem vestrænir fréttamiðlar halda fram að Hamas hafi framið þá voru þetta óneitanlega vatnaskil í samskiptum þjóðanna. Palestína hafði verið hersetin í tæp 60 ár og barist gegn hernáminu með ýmsum hætti en þetta var áreiðanlega þyngsta höggið sem fulltrúar þess fólks höfðu greitt Ísrael.“

Segir:

„Eftir áratuga hernám hlýtur það að vera inngróið í hinn kúgaða að berjast gegn hernámsaðilanum. Notaðar hafa verið ýmsar aðferðir til frelsisbaráttunnar og þær ekki allar fallegar. Eflaust var árásin á Ísrael ofbeldisfyllri og ljótari en áður hafði þekkst en þetta eru samt hinir undirokuðu að krefjast frelsis frá aðila sem hefur öll þeirra ráð í hendi sér. Palestínumönnum hefur lengi verið haldið eins og fé innan girðingar; til að komast út þarf oft að hafa alls konar leyfi og fara í gegnum eftirlitshlið þar sem hver aðili er myndaður. Ísrael ræður í stórum dráttum hvernig þetta fólk hreyfir sig. Hernámsaðilinn stjórnar öllu á Gaza: Aðgangi að rafmagni, vatni og öðrum lífsins gæðum. Gaza hefur verið kallað stærsta opna fangelsi jarðar. Þar er kúgunin enn meiri en á Vesturbakkanum.Og ef fólk fer ekki eftir reglunum mætir herinn með alvæpni.“

Ingólfur talar um landrán:

„Landránið er svo sér kapítuli og mest stundað á Vesturbakkanum þar sem landránsbyggðir hafa skotið upp kollinum eins og gorkúlur síðan 1967 og ránsmenn fara nú um með sívaxandi ofbeldi. Að láta sér detta í hug að fremja þvílíkt þjóðarmorð og nú hefur staðið í 10 mánuði er nokkuð sem erfitt er að skilja. Að brjóta öll hugsanleg mannréttindi, fremja endalausa stríðsglæpi, þjóðernishreinsanir, svelta fólkið og halda frá því vatni. Gazabúar eru nú svo hart leiknir að þeir eiga ekkert eftir, byggðirnar hafa verið lagðar í rúst og fólkið hefst við innan um brakið, matar- og vatnslítið meðan frárennsli hefur allt verið eyðilagt, sorp hleðst upp og hvers kyns faraldur er yfirvofandi. Allt er þetta í algjörri andstöðu við þau mannlegu réttindi sem vestrænar þjóðir hafa verið að reyna að koma sér saman um sl. 100 ár. Og yfirskin allra þessara árása er að Hamasliðar hafi verið á svæðinu!“

Ingólfur segir að það „að drepa tugi þúsunda kvenna, barna, gamalmenna og særa enn fleiri, á þessum forsendum, er nýtt met í ómennsku. Auðvitað eru hægri fasistar við völd í Ísrael. En eiga þeir að komast upp með þetta? Sem betur fer hefur glæpadómstóllinn í Haag sagt það sem blasir við öllum: Þetta er tilraun til þjóðarmorðs! Og fáeinar þjóðir hafa viðurkennt Palestínu sem ríki. En Bandaríkin ráða því sem þau vilja ráða í krafti styrkleika síns; þau eru með liðleskjuna Blinken og hinn seníla Biden; þeir þykjast hafa verið að semja um vopnahlé mánuðum saman án þess að geta sýnt fram á nokkurn árangur; og svo er rauðhærða fíflið á vappi við dyrnar, hrópandi að þetta hefði aldrei gerst hefði hann verið aðal og síonistar verði að fá að ljúka verkinu, meðan allt sæmilega viti borið fólk veit að ekki er hægt að útrýma hugmyndafræði! Neisti frelsisins í brjósti hins kúgaða verður ekki slökktur. Staðreyndin er sú að USA hefur stutt þjóðarmorðið með endalausum vopnasendingum. Stuðningur okkar við Ísrael er bjargfastur, segja þér og neita að setja síonistum neinn stól fyrir nokkrar dyr.“

Að hans mati er eina manneskjan sem er með ráði og „rænu í þeirri forystusveit er Kamala Harris. Hún hefur andæft stríðsglæpunum, neitaði að taka þátt í fáránlegri hallelújasamkomu Repúblíkana í þinghúsinu og sagði glæpamanninum Bíbí til syndanna. Hvort hún lyppast síðar niður við hlið Bidens verður tíminn að leiða í ljós. Og svo halda þeir áfram að sprengja og drepa og eyðileggja með vestrænum vopnum meðan stjórnvöld Vesturlanda segja já og amen en almenningur andæfir. Og hvað eru þau mótmæli kölluð af síonistum og stjórnvöldum Bretlands, USA og Þýskalands? Jú, mótmælin gegn slátrun á tugþúsundum barna og kvenna eru kölluð gyðingahatur!“

Segir að endingu:

„Og svo er farið með möntruna um að Ísrael hafi rétt til að verja sig. En þegar síonistar leggja heilt land í rúst og drepa tugþúsundir þá er það móðgun við heilbrigða skynsemi að nota hugtakið vörn eða að kalla andóf gegn slíku gyðingahatur! Það er móðgun gegn þeim sem urðu fyrir raunverulegu gyðingahatri og týndu lífi í holocaustinu; það er móðgun við gyðinga víðs vegar um heiminn sem hafa andstyggð á síonistum og því hvernig þeir fara með Palestínumenn, gyðingdóminn, trúna og að þeir skuli dirfast að fremja þjóðamorð og kalla það vörn.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -