Mikil umræða hefur skapast í samfélaginu undanfarna daga um vopnavæðingu lögreglunnar á Íslandi. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, lét hafa það eftir sér að leiðtogafundur Evrópuráðsins hafi mögulega verið notaður sem afsökun til að vopnavæða lögregluna.
Í samtali við mbl.is í gær sagði Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, að málflutningur Björns sé til þess fallinn að ala á tortryggni í garð lögreglunnar.
Í pistli sem Björn Leví birti fyrr í á samfélagsmiðlinum Facebook hafnar Björn þessu alfarið. Hann segir að það sé pólitísk ákvörðun ríkisstjórnarinnar að vopnavæða lögregluna og segir það ódýr pólitík að nota lögregluna sem blóraböggul fyrir ábyrgð ráðherra í þessu máli.
Björn skrifar svo sérstaklega til ríkislögreglustjóra og annarra lögregluembætta.
„Þið standið ykkur vel í erfiðum aðstæðum. Undirmönnuð og undirfjármögnuð. Ég veit að þið viljið fólkinu í landinu allt hið besta. Til þess að gera meira og betur leggið þið fram alls konar tillögur um betrumbætur og nýtingu fjármuna sem ráðherra og þingið þurfa að samþykkja. Í engri fjármálaáætlun undanfarinna ára hefur komið skýrt fram að auka eigi við vopnabúnað lögreglu. Það er talað um „að efla aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi“ sem var brugðist við árið 2023: „hefur verið áhersla á að efla rannsóknargetu lögreglu þegar kemur að umfangsmiklum málum. Komið hefur verið á fót sérstökum rannsóknarteymum sem starfa undir forræði stýrihóps um aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi.“ Þetta er ekki fólk sem er að fara í einhverja skotbardaga við skipulagða glæpastarfsemi.“