Stýrivöxtum Seðlabanka Íslands verður haldið óbreyttum í 9,25 prósentum. Þetta kemur fram í tilkynningu Peningastefnunefndar bankans.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri tilkynnti í morgun að Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hafi ákveðið að halda stýrivöxtum áfram í 9,25 prósentum.
Fram kemur í yfirlýsingu nefndarinnar að verðbólga hafi aukist eilítið frá síðasta fundi hennar eftir að hafa minnkað fram eftir ári. „Undirliggjandi verðbólga er enn mikil og verðhækkanir eru á breiðum grunni þótt húsnæðisliðurinn vegi enn þungt. Verðbólguvæntingar hafa einnig lítið breyst og haldist yfir markmiði.“ Segir einnig í yfirlýsingunni að nokkurn tíma geti tekið að ná fram ásættanlegri hjöðnun verðbólgu.
Þá kemur einnig fram í yfirlýsingu nefndarinnar að talið sé að hagvöxtur í ár verði aðeins hálf prósent en í maí spáði Seðlabankinn að hagvöxtur yrði 1,1 prósent. Aðalástæðan á frávikin uer sögð vera lakari horfur í ferðaþjónustu.
Spáir bankinn því að um 2,2 milljónir ferðamanna sæki Ísland heim í ár, samaborið við 2,3 milljónir í spánni frá í maí. Þá kemur fram í peningamálum að á öðrum ársfjórðungi hafi umsvif í ferðaþjónustu degist saman á milli ára en fimm prósent færri ferðamenn komu til landsins þrátt fyrir aukið flugframboð.
„Á móti hélt skiptifarþegum áfram að fjölga töluvert. Þá fækkaði gistinóttum enn meira en komum ferðamanna eða um 10% frá fyrra ári og virðist dvalartími þeirra því hafa styst.“
Þá bendi aftur á móti nýjar og endurnýjaðar tölur um kortaveltu til þess að meðalútgjöld ferðamanna hafi hækkað milli ára.
RÚV sagði frá ákvörðuninni.