Samtökin No Borders Iceland hafa gefið frá sér yfirlýsingu þar sem þau skora á öll starfandi flugfélög á Íslandi að neita því að flytja Yazan Tamimi úr landi.
Í yfirlýsingu sem samtökin No Borders Iceland birtu á Facebook í morgun, skora samtökin á öll starfandi flugfélög á Íslandi að neita fyrirskipun yfirvalda að flytja hinn 11 ára Yazan Tamimi úr landi en hann er á flótta ásamt foreldrum sínum frá Palestínu. Eins og alþjóð veit er Yazan greindur með vöðvarýrnunarsjúkdóminn Duchenne en það er einn ágengasti og alvarlegasti sjúkdómurinn af þessu tagi. Fram kemur í yfirlýsingunni að læknisvottorð sýni fram að það eitt að vera fluttur upp í flugvél geti orðið honum að bana.
Til stóð að senda Yazan og foreldra hans úr landi til Spánar, þar sem þau höfðu millilent á leið sinni til Íslands, fyrr í sumar en þeirri ákvörðun var frestað fram í ágúst. Á næstu dögum má búast við að fjölskyldan verði sótt af lögreglunni og send úr landi en heilsa Yazan hefur hrakað mjög í sumar eftir að rof varð á heilbrigðisþjónustu hans en hann var fluttur á dögunum á bráðadeild Barnaspítala Hringsins.
No Borders taka fram í yfirlýsingu sinni að bæði flugfélögin og þeir lögreglumenn sem tækju þátt í að vísa Yazan úr landi, væru „jafn meðsek í því ódæðisverki og sjálfir ráðamenn“.
Hér má lesa yfirlýsinguna í heild sinni:
No Borders Iceland skorar á öll starfandi flugfélög á Íslandi að neita því að flytja Yazan Tamimi úr landi.
Yazan Tamimi er 11 ára drengur á flótta frá Palestínu. Hann er greindur með vöðvarýrnunarsjúkdóminn Duchenne sem er einn ágengasti og alvarlegasti vöðvarýrnunarsjúkdómurinn. Læknisvottorð hefur sýnt fram á að það eitt að vera fluttur upp í flugvél getur orðið honum að bana.
Lífslíkur þeirra sem ekki fá meðferð við sjúkdómnum eru um 19 ár.
“Það er líka ljóst að verði rof á þessari þjónustu getur það verið lífshættulegt og stytt hans ævi. Benda má á að 30% drengja með Duchenne vöðvarýrnun deyja í kjölfarið á falli eða hnjaski.” segir í læknisvottorði Yazan. Auk þess sem fagfélög á borð við ÖBÍ, Þroskahjálp,
Einstök börn og Duchenne samtökin hafa fordæmt brotvísunina.
Ekkert flugfélag sem státar sig af samfélagslegri ábyrgð ætti að sætta sig við það að framkvæma illvirki á borð við það að senda langveikt og dauðvona barn úr landi og á götuna á Spáni þar sem það verður, án dvalarleyfis og læknisþjónustu. Þetta er ekki eitthvað sem við getum látið bjóða okkur. Að öllu óbreyttu á Yazan aðeins örfá ár eftir ólifuð.
Að lokum vill No Borders Iceland árétta það að öll þau flugfélög og það lögreglufólk sem tekur þátt í brottvísun Yazan eru jafn meðsek í því ódæðisverki og sjálfir ráðamenn, við höfum öll okkar val um að standa upp og gera það sem er rétt.
Við hvetjum öll flugfélög til þess að velja mannúð og samfélagslega ábyrgð og vonum að bæði lögreglan og stjórnvöld sjái sóma sinn í að gera það líka, jafnvel þótt það væri ekki af fyrra bragði.
Yazan á heima hér.