Bangsafélagið stendur fyrir árlegri hátíð félagsins Reykjavík Bear dagana 29. ágúst til 1. september. Yfir 125 erlendir bangsar víðsvegar úr heiminum mæta á næstu dögum til Íslands og fagna með Bangsafélaginu.
Reykjavík Bear hátíðin í ár er nokkuð stærri en í fyrra með umtalsvert fleiri miðum seldum. Hátíðin hefur stækkað ár frá ári og hefur aldrei verið vinsælli. Hátíðarpassar eru löngu uppseldir en bangsar og bangsavinir þurfa alls ekki að örvænta því miðar í partý Reykjavík Bear eru enn til sölu á reykjavikbear.is og svo má alltaf kaupa í hurð.
Samkvæmt tilkynningu frá félaginu eru allir velkomnir á Reykjavík Bear, sís, trans eða kynsegin og alveg sama hvernig fólk lítur út en líkamsskömm verður að skilja eftir heima. „Bangsar vita að þegar maður lítur ekki út eins og fólkið í tískutímaritum og flest fólk í sjónvarpi er auðvelt að fara að trúa því að maður sé þess ekki verðugur að vera elskaður. Bangsarnir sameinast um lífsgleði, samstöðu og samkennd. Bangsar eru ljúfir, hressir, skemmtilegir og góðir við náungann,“ segir í tilkynningunni.
Bangsafélagið var stofnað árið 2019 í kringum árlegu bangsahátíðina Reykjavík Bear. Að auki heldur Bangsafélagið fjölda viðburða, eflir samstöðu og félagsskap og vinnur að því að auka sýnileika bangsa og þeirra sem tilheyra því samfélagi með einum eða öðrum hætti. Bangsar vita að það eru allskonar líkamar og allskonar fólk.
Reykjavík Bear stendur yfir í fjóra daga með nokkrum fjölda skemmtana en þar á meðal eru heimsókn í Sky Lagoon, ferð um Gullna hringinn, bangsabrunch og bangsapartý öll kvöldin. Á föstudagskvöld er Top-off partý á Gauknum þar sem gestum er boðið að skemmta sér berir að ofan á meðan DJ Mighty Bear þeytir skífum. Laugardagsbangsapartý fer fram á Bryggjunni Brugghúsið þar sem DJ Rami hitar upp fyrir DJ Perfecto sem kemur alla leið frá Ungverjalandi til að skemmta alþjóðlegum hópi Bangsa.