Jón Gunnar Geirdal almannatengill er mikill áhugamaður um sjónvarpsþætti og kvikmyndir. Hér segir hann frá fjórum þáttaröðum sem tilvalið er að horfa á í hámi.
Breaking Bad
„Ef þú átt þessa snilldarþætti eftir þá er þetta skylduáhorf og rúmlega. Stórkostleg sería og Walter White einn eftirminnilegasti karakter sjónvarpssögunnar. Væntanleg er El Camino-kvikmyndin sem heldur áfram með söguna, bíð spenntur og eins gott að hún verði í lagi.“
Fleabag
„Ein allra besta sería sem ég hef horft á. Guardian setti hana í áttunda sæti yfir „bestu allra tíma“-þætti á 21. öldinni, ætli hún myndi ekki rata á topp 5 hjá mér. Phoebe Waller-Bridge stórfengleg í þessari drepfyndnu dramedíu og líka væntanlega kvikmynd, #getekkibeðið“.
Mindhunter
„David Fincher, fjöldamorðingjar og upphaf prófílera hjá FBI, fullkomin uppskrift að snilldinni sem þessir þættir eru. Sería 2 enn betri en sú fyrsta sem var mögnuð – fluga á vegg í viðtölum við Son of Sam, Charles Manson og marga fleiri. Dásamlega „dark“ og drungalegt Netflix-skylduáhorf.“
OJ: Made in America
„Ótrúlega vel gerðir heimildaþættir og þá sérstaklega síðasti þátturinn sem sýndi manni hvað varð um OJ eftir sýknunina alræmdu. Heimildamyndafíkla-must-see og rúmlega.“