Rétt fyrir Jónsmessu, árið 1724, andaðist erlend stúlka, Appollónía Schwartzkopf, á Bessastöðum, aðsetri amtmannsins Níelsar Fuhrmanns. Appollónía var heitkona amtmannsins en hann hugðist ekki efna heit sitt. Appollónía hafði undir sitt síðasta sakað ráðskonu amtmanns og dóttur hennar, lagskonu hans, um að brugga henni launráð.
Maður að nafni Níels Fuhrmann var sendur hingað til lands árið 1718, hafði þá verið skipaður til að gegna amtmannsstörfum. Með honum í för var kona, Katrín Hólm, sem veitti heimili hans á Bessastöðum forstöðu. Þannig var mál með vexti að Níels var, þegar hann yfirgaf Kaupmannahöfn, heitbundinn Appollóníu Schwartzkopf, en þegar á hólminn var komið var hann tregur mjög til að efna heit sitt.
Dæmdur til greiðslu fjár
Appollónía sætti sig ekki við tregðu amtmanns og sótti hann til saka fyrir heitrof. Málið kom til kasta hæstaréttar í Kaupmannahöfn veturinn 1721 og var niðurstaðan Níels amtmanni helst til óhagfelld. Ekki aðeins var Níels dæmdur til að eiga jómfrúna, því hann skyldi einnig greiða henni árlega 200 ríkisdali þar til höfuðákvæði dómsins væri fullnægt, það er að hann kvæntist heitkonu sinni.
Þetta voru afarkostir fyrir amtmanninn því 200 ríkisdalir námu tveimur þriðju hlutum launa hans hér á landi.
Lævi blandið loft
Eftir að dómur var kveðinn upp beið Appollónía ekki boðanna, fann sér farborða og fór til Íslands. Eðlilega settist hún að á Bessastöðum. Segir ekki margt af næsta ári, en eftir það dró til tíðinda, svo vægt sé til orða tekið. Þá kom til Bessastaða lagskona amtmannsins, Karen Hólm, dóttir Katrínar, bústýru á Bessastöðum.
Í kjölfarið gerðist loft á amtmannssetrinu lævi blandið. Hólms-mæðgur og Appollónía sátu aldrei á sárs höfði, enda sótti jómfrúin fast eftir ástum Níelsar.
Tíð veikindi og galdrakarl
Veturinn og vorið 1724 veiktist Appollónía hvað eftir annað og hafði orð á því við fjölda fólks að henni hefði verið byrlað eitur. Einnig kvisaðist að áður en Appollónía kom til landsins hefði Katrín Hólm sent vinnukonu sína að Nesi við Seltjörn. Þar bjó Níels Kjer, varalögmaður, en vinnukonan átti erindi við konu hans, Þórdísi.
Erindið var að finna fyrir Katrínu öflugan galdramann sem gæti bægt Appollóníu burtu. Orðrómur var einnig á kreiki um meðalaglas sem umrædd vinnukona fékk síðar í Nesi og færði húsmóður sinni.
Ágætisatlæti til að byrja með
Því skal haldið til haga að ágætlega var búið að jómfrú Appollóníu til að byrja með eftir að hún kom til Bessastaða. Hún hélt til í íbúðarhúsinu, en sjálfur svaf Níels amtmaður í tjaldi úti á vellinum á meðan svefnrými var stúkað af fyrir hann í stofunni. Jómfrúin og amtmaðurinn settust einnig að snæðingi saman og segir sagan að hann hafi á stundum tekið við hana skák og gjarna beðið gestkomandi að hafa ofan fyrir henni með einum eða öðrum hætti.
Þó duldist engum sem til þekkti hve mjög nærvera Appollóníu og nánast tilvist öll var amtmanni á móti skapi. Ekki bætti úr skák hve nærri hún gekk tekjum hans, að hans mati, enda nam, sem fyrr segir, sú fjárhæð sem hann var dæmdur til að greiða henni meirihluta tekna hans.
Hrákar og handalögmál
Allt breyttist þetta eftir að Níels amtmaður kom einn góðan veðurdag, vorið 1723, heim frá Grindavík og var Karen Hólm með honum í för.Í kjölfarið versnaði hagur Appollóníu til mikilla muna. Strax um haustið var henni meinað að setjast til borðs með amtmanni og kostur hennar gerðist rýr.
Ástand á Bessastöðum átti enn eftir að versna og „ófagrar sennur gerðust tíðar“. Hrákaslummur flugu á milli kvennanna og ónefni á borð við skepna, hóra og mellumóðir voru títt viðhöfð og „stundum voru barefli á lofti.“ Í eitt skipti kom til handalögmáls á milli Appollóníu og amtmannsins; hún reif í hár hans og hann svaraði með barsmíðum.
Vildi þrauka á Bessastöðum
Eftir að Níels lagði hendur á Appollóníu leitaði hún til Kornelíusar Wulfs landfógeta, en sagðist lítið geta gert í málinu; hún væri kærasta amtmannsins og yrði því að sætta sig við þá meðferð er hún sætti af hans hálfu. Appollónía vildi þrauka á Bessastöðum og hafði skrifað bréf til yfirvalda í Danmörku og óskað þess að Níelsi yrði skipað að hlýðnast hæstaréttardómnum frá 1721 og fullnægja höfuðákvæði hans.
Uppsölur miklar
Appollónía sagðist, haustið 1723, hafa haft spurnir af því að tveimur íslenskum karlmönnum á Bessastöðum, Sigurði Gamlasyni og hinum ónafngreindum, hefði verið boðið fé ef þeir kæmu henni fyrir kattarnef. Bar jómfrúin þetta sjálf á Sigurð en hann harðneitaði, en til voru þeir sem sögðu hann sjálfan hafa haft á þessu orð. Hvað sem því leið þá tók Appollónía að veikjast illa og tíðum á vormánuðum 1724 með miklum uppköstum.
Grunsamlegir grautar
Á þeim tíma bar Appollónía sig upp við fjölda fólks og viðraði þá fullvissu sína að henni væri byrlað eitur og altalað var „að hún myndi ekki til langlífis borin.“ Landfógetinn Kornelíus fór ekki varhluta af kveinstöfum hennar og fékk meðal annars að heyra að þegar hún veiktist í fyrsta sinn, haustið 1723, hefði henni verið borinn grautur með ammoníakskeim.
Um sumarmál 1724 fékk hún vöfflur með óskiljanlega miklu af sykri á og um krossmessuna, sama ár, fékk hún enn og aftur graut, en þá með miklu af sykri og kanel á. Hún hefði ekkert sykurbragð fundið af grautnum og ekki getað torgað grautnum öllum. Dönsk vinnukona hefði dregið hana að landi og einnig orðið fárveik af.
Sjö vikna banalega
Síðustu sjö vikur lífs síns steig Appollónía Schwartzkopf ekki á fæturna og rétt fyrir Jónsmessuna árið 1724 gaf hún upp öndina. Hún var jörðuð án þess að líkskoðun færi fram og á þeim tíma ekki vitað hvort nokkur eftirmál yrðu. En sú varð þó raunin, því konungur fyrirskipaði að málið skyldi rannsakað og var það gert sumarið og haustið 1725.
Hákon Hannesson, sýslumaður Rangæinga, og séra Þorleifur Arason, prófastur á Breiðabólstað, voru skipaðir umboðsdómarar og falið að leiða til lykta Svartkoppumálið, en Appollónía var gjarna nefnd Svartkoppa af Íslendingum.
Misvísandi og sundurleitir vitnisburðir
Mörg þau vitna sem kölluð voru til höfðu eftir Appollóníu sögur um eiturbyrlun og ill atvik. Þau sögðu sum að lík hennar hefði ekki stirðnað, varir hefðu verið svartbláar og blettir á höndum og andliti. Prestarnir Björn Thorlacius í görðum og Halldór Brynjólfsson í Útskálum höfðu eftir jómfrúnni að hún sjálf hefði talið krankleika sinn stafa af óheilbrigðu blóði. Sumt af Bessastaðafólki varð tvísaga meðan á rannsókn stóð.
„Segið nei –“
Á meðal vitna var Dani, Larsen að nafni, sem gaf sinn vitnisburð í Kaupmannahöfn. Hann sagðist hafa heyrt Sigurð Gamlason segja í eldhúsi landfógetahjónanna, að Katrín Hólm hefði boðið honum 50 dali fyrir að drepa Appollóníu. Ljóst má telja að fullvissa Appollóníu um yfirvofandi launmorð sumarið 1723 var mikil, því þá rakst hún á Sigurð og sagði við hann: „Dreptu mig nú, svo þú getir fengið þá fimmtíu dali , sem þér hefur verið lofað.“ En Sigurður mun þá hafa beðið guð að varðveita hann frá því.
Er Níels amtmaður heyrði af þessari uppákomu fyrtist hann við, skammaði Appollóníu og lét síðan kalla heimilisfólk, einn og einn í senn, til híbýla hennar til yfirheyrslu. Haft var fyrir satt að þá hefði maður ráðskonunnar, Katrínar Hólm, staðið í dyrum, þrifið í föt fólks og sagt: „Segið nei – eða það fer illa fyrir ykkur!“
Vitnisburður Larsens
Einn sagði ekki „nei“ í þetta sinn, sumarið 1723, en það var fyrrnefndur Larsen. Hann sagði amtmanni hvað hann hefði heyrt Sigurð Gamlason segja í eldhúsi landfógeta fyrrum. Þegar yfirheyrslu lauk lét amtmaður þjón sinn kalla eftir Larsen, sem hann síðan ávítaði fyrir að tala of mikið við Appollóníu. Bannaði amtmaður Larsen að vera í of miklu samneyti við jómfrúna, „ef hann vildi heita heiðarlegur maður“.
Hænan sem drapst
Þegar Larsen bar vitni í Kaupmannahöfn í Svartkoppumáli hafði hann eftir stúlku á Bessastöðum að ráðskonan hefði eitt sinn spurt hvernig jómfrú Appollónía væri til heilsunnar, en þá hafði hún nýlega fengið enn eitt kastið. Stúlkan sagði þá að jómfrúin hefði kastað upp. „Djöfullinn hlaupi í hana! Með þessu lagi getur hún lifað í tíu ár,“ sagði þá ráðskonan.
Hæna hélt til í híbýlum Appollóníu og eitt sinn er henni var borinn grauturinn, sem hún hafði veikst af, gaf hún hænunni af grautnum – hænan verpti í kjölfarið undarlegu eggi og drapst svo. Að sögn Larsens reyndi Níels amtmaður ítrekað að komast yfir hræið, en ekki tekist.
Meðdómari segir sig frá málinu
Gera þurfti hlé á réttarhöldum þegar Hákon Hannesson sýslumaður sagði sig frá málinu. Lýsti hann því yfir þegar þing hófst á ný að „hann hefði ekki frekari afskipti af málinu“ .Séra Þorleifur hélt áfram störfum og kvað upp dóm í október 1725. Hann sýknaði Hólmsmæðgur, Katrínu og Karen, af ákæru um að þær hefðu ráðið jómfrú Appollóníu Schwartzkopf bana, eða verið í vitorði með einhverjum sem það hefði gert. Þannig fór það.
Heimild: Öldin sem leið.