Brynjar Níelsson yfirgaf fundinn þegar dómsmálaráðherra mætti.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, ræðir mál ríkislögreglustjóra og situr fyrir svörum á fundi með stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og formaður nefndarinnar, kallaði eftir fundinum.
Fundurinn hófst klukkan níu og er lokaður. Um stundarfjórðungi eftir að fundurinn hófst var Áslaug kölluð inn en samkvæmt frétt á mbl.is yfirgaf Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fundinn um leið og Áslaug mætti.
Uppfært klukkan 10.22
Í samtali við Vísi sagði Brynjar að gjörningurinn hafi ekkert með Áslaugu að gera. „Þetta hefur ekkert með ráðherrann að gera, þó mönnum þætti það mjög skemmtileg frétt,“ sagði Brynjar.
Þá sagði Brynjar að hafa yfirgefið fundinn í mótmælaskyni þar sem Þórhildur Sunna, formaður nefndarinnar, hafi ákveðið að halda fund af þessu tagi „án þess að tala við kóng né prest“.
Sjá einnig: Haraldur áfram ríkislögreglustjóri