Matvælaráðherra Íslands, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir vill breyta lögum um sjávarútveginn.
Fram kemur á vef stjórnarráðsins að Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra, muni leggja fram tillögur á komandi þingi að breytingum á lögum er varða sjávarútveginn. Byggja breytingarnar meðal annars á þeim tillögum sem starfshópar verkefnisins Auðlindin okkar lögðu fram í nóvember í fyrra í svokallaðri samráðsgátt stjórnvalda. Auk þess er fyrirhugað að leggja fram tillögu til þingsályktunar um sjávarútvegsstefnu en drög að þeirri stefnu hafa aukreitis verið lagðar fram í samráðsgátt stjórnvalda.
Í haust verða áformaðar breytingar kynntar í samráðsgátt en breytingarnar snúa meðal annars að ákvæðum er snerta gagnsæi og tengdra aðila, strandveiðum, verndarsvæðum í hafi, Verkefnasjóð sjávarútvegsins auk breytinga á lögum um veiðigjald sem taka mið af fjármálaáætlun 2025-2029, að því er fram kemur á vef stjórnarráðsins. Einnig hefur innviðahópur sem skipaður var af matvælaráðherra í apríl á þessu ári, unnið að útfærslu innviðaleiðar í stað almenns byggðarkvóta. Stefnt er að því að hópurinn skili tillögum í þessum mánuði.
Þá verður áfram unnið með tillögur starfshópa Auðlindarinnar okkar og þær hafðar til hliðsjónar við frekari stefnumörkun og breytingar í sjávarútveginum.