Sunnudagur 22. september, 2024
11.6 C
Reykjavik

Illvirki um miðja nótt – Heimilisfólk bundið og rænt á Kambi í Flóa

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Aðfaranótt hins 9. febrúar, 1827, svaf heimilisfólk á bænum Kambi í Flóa svefni hinna réttlátu og uggði ekki að sér. Þrátt fyrir að úti fyrir geisaði stormur mikill ríkti friður innan veggja heimilisins. Næturfriðurinn var rofinn þegar fjórir menn, illþekkjanlegir, brutust þar inn. Heimilisfólk var bundið á höndum og fótum, þar sem það lá nakið í rekkjum sínum. Fjórmenningarnir fóru síðan um húsið allt í leit að peningum eða öðru fémætu.

Á Kambi í Hróarholtshverfi í Flóa bjó þá ekkillinn Hjörtur Jónsson. Hann var af talinn vel loðinn um lófana og gengu um það sögur þá, að hann ætti mikið af peningum.

Þegar þetta átti sér stað voru á heimilinu, ásamt Hirti, ráðskonan Gróa Ketilsdóttir, vinnukonan Guðrún Björnsdóttir og sex vetra drengur, Andrés.

Ránsmennirnir þustu rakleiðis til baðstofu eftir að hafa brotist inn í bæinn og fóru tveir þeirra að rúmi Hjartar og bundu hendur hans og fætur með snæri.

Einn mannanna gerði slíkt hið sama við Gróu ráðskonu, „eigi mjög fast“, og fleygði henni síðan á grúfu á gólfið. Rígbundnum Hirti hentu þeir síðan ofan á Gróu.

Menn eða djöflar

Mennirnir létu ekki þar við sitja en tóku allt lauslegt úr rekkjum Hjartar og Gróu, sængurföt, hey og reiðing, sem undir rúmi var, og hentu í haug yfir þau þar sem þau lágu á gólfinu. Undan rúmi drógu þeir síðan kistu, skrínu, kvarnarstokk og sitthvað fleira.

- Auglýsing -

Vinnukonan Guðrún fór ekki varhluta af aðgerðum ránsmannanna. Fjórði maðurinn tók hana og batt á sama hátt og gerð hafði verið við Gróu, „þó ekki fast“.

Meðan á því stóð spurði Guðrún, hverjir þeir væru; „hvort heldur menn eða djöflar“. Hún fékk þau svör að mennirnir væru á höttunum eftir peningum Hjartar.

Hótað dauða

Sá sem batt Guðrúnu bað hana að upplýsa hvar peningar húsbónda hennar væru, annars yrði hún drepin. Sagðist Guðrún ekkert vita um það og batt þá ræninginn rekkjuvoð um höfuð hennar svo hún sæi ekkert og fleygði henni að því loknu aftur upp í rúmið.

- Auglýsing -

Andrés litli, sem deildi rúmi með Guðrúnu, fékk vægari meðferð en hin fullorðnu. Hendur hans voru bundnar fyrir aftan bak, en fæturnir voru ekki bundnir.

Í öllum atganginum fann Guðrún að maðurinn var í skinnklæðum og með grímu fyrir andliti, en slíkt hið sama hafa ráðskonan fundið þegar hún var bundin.

Limlesting, pyntingar og dauði

Þegar þarna var komið sögu leituðu ræningjarnir að lampa, kveiktu síðan ljós og hófu leit í húsinu.

Einn ræningjanna, sem virtist foringinn í hópnum, stóð þó allan tímann yfir Hirti. Hann jós yfir Hjört fúkyrðum, hótaði honum öllu illu, pyntingum og dauða, ef hann segði eigi til peninganna.

Segir sagan að svo rammt hafi kveðið að ragni þessa fyrirliða að meira að segja félögum hans blöskraði og töldu þeir næsta víst að Hjörtur yrði að lokum limlestur eða tekinn af lífi.

Rúmlega 1.000 ríkisdalir

Einn ræningjanna tók úr pússi sínu hamar og fleyg og braut upp kistu og kistla. Síðan tóku ræningjarnir allir til óspilltra málanna og létu ekki staðar numið fyrr en brotnar höfðu verið upp allar hirslur og flestu lauslegu snúið við.

Upp úr krafsinu höfðu þeir rúmlega 1.000 ríkisdali og ákváðu við svo búið að hverfa á braut. Hafði þá fyrirliðinn á orði að best væri að bera eld að húsinu, „brenna það að kalda kolum“ og heimilisfólk með. Annar ræningi taldi þó að gott væri komið og hurfu fjórmenningarnir við svo búið út í nóttina.

Nakinn að næsta bæ

Hirti tókst að komast undan kösinni og mjaka sér að rúmi sínu og velta sér upp í það. Þar náði hann í hníf og gat skorið snærið sem bundið var um hnésbætur hans, en gat ekki losað hendurnar.

Fátt var annað í stöðunni en að finna hjálp og dróst Hjörtur því klæðlaus og bundinn á höndum, gegnum storminn, að næsta bæ sem var Hróarsholt. Þar tókst honum að gera vart við sig og var liðsinnt án tafar.

Heima á Kambi hafði Guðrúnu tekist að losna úr böndunum, leysa Andrés úr viðjum og veita ráðskonunni hjálp. Fóru þær síðar að smábýlinu Grákletti og fengu þar hjúkrun, enda þrekaðar mjög.

Leðurskór í túnjaðri

Menn frá Hróarsholti höfðu þá vakið menn upp á Króki, næsta bæ, og hélt hersingin að Kambi. Þar var allt á rúi og stúi og ömurlegt um að litast.

Andrés litli var þar aleinn í myrkrinu, dauðskelfdur eftir raunir næturinnar.

Eftir að ljós höfðu verið kveikt sást ýmislegt sem ræningjarnir höfðu skilið eftir sig; hattgarmur, strigatuska, brot úr brúsa, snærishönk og nýsleginn járnteinn.

Í túnjaðrinum fannst síðan það sem átti eftir að skipta sköpum bið rannsókn málsins, leðurskór sem talið var næsta víst að tilheyrði einhverjum ræningjanna.

Ræningjarnir fundnir

Í maí þetta sama ár var rannsókn á málinu vel á veg kominn. Tekist hafði að finna alla ræningjana og höfðu þeir allir meðgengið afbrot sitt.

Það sem kom yfirvöldum á rétta sporið var einmitt skórinn sem fundist hafði í túnjaðrinum á Kambi.

Gerhugul kona taldi sig þekkja handbragðið á skónum og næsta víst að eiginkona Jóns nokkurs Geirmundssonar á Stéttum í Hraunshverfi í Stokkseyrarhreppi hefði gert hann. Á steðja þessa sama Jóns sannaðist að nýslegni járnteinninn hafði verið á honum sleginn.

Annar Jón, sá Kolbeinsson, rennismiður á Brú í Stokkseyrarhreppi, bendlaðist við málið vegna vettlings sem fannst í túni á Kambi nokkrum dögum eftir ránið.

Einnig upplýstist að Hafliði á Stóra-Hrauni, bróðir Jóns, hefði verið að heiman umrædda nótt.

Leiðtoginn nefndur

Þremenningarnir játuðu við yfirheyrslu á sig glæpinn og bar þeim öllum saman um að forsprakkinn væri Sigurður Gottsveinsson á Leiðólfsstöðum.

Hann var þvermóðskan uppmáluð við yfirheyrslu en meðgekk að lokum eftir mikla vafninga.

Upp úr kafinu kom að ekki voru einungis fjórmenningarnir viðriðnir málið heldur urðu ýmsir ættingjar þeirra uppvísir og sannir að sök um vitorð og yfirhylmingu. Þegar upp var staðið var talið að um tuttugu manns væru sekir, með einum eða öðrum hætti, í ránsförinni að Kambi óveðursnóttina í febrúar 1827.

Dómur fellur

Þann 21. janúar, 1828, féll dómur í máli þeirra sem komu að ránsförinni að Kambi. Var þá um að ræða eitt umfangsmesta mál af þessum toga á Íslandi. Rannsókn stóð yfir í nærfellt ellefu mánuði og alls var dæmt í málum 30 karla og kvenna.

Fimmtán voru sakfelldir, tíu „dæmdir fríir af frekari ákærum réttvísinnar“ og fimm sýknaðir að fullu.

Sigurður var dæmdur til að hýðast við staur og brennimerktur verða og þræla ævilangt í Kaupmannahöfn. Jón Geirmundsson var dæmdur til að hýðast við staur og þrælkunarvinnu til æviloka. Jón Kolbeinsson fékk tólf ára þrælkunardóm og bróðir hans, Hafliði, átta ára þrælkunardóm.

Heimild: Öldin sem leið

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -